Ný umferðalög – nokkur nýmæli

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur sent frá sér yfirlit yfir helstu nýmæli í nýjum umferðarlögum.

Nýju umferðarlögin voru samþykkt á Alþingi í júní og fela í sér mörg veigamikil nýmæli og breytingar á fyrri löggjöf. Lögin er afrakstur margra ára undirbúnings og heildarendurskoðunar á löggjöfinni í víðtæku samráði við almenning og hagsmunaaðila.

Nýju lögin nr. 77/2019 taka gildi um næstu áramót eða 1. janúar 2020.

  • Ölvunarakstur – Í nýju lögunum telst ökumaður ekki geta stjórnað ökutæki örugglega ef vínandamagn mælist 0,2‰ í blóði hans. Hlutlægu mörkin sem segja til um það hvort ökumaður geti stjórnað ökutæki örugglega eru því lækkuð úr 0,5‰ í 0,2‰. Refsimörk verða þó áfram miðuð við 0,5‰ og verður ökumönnum því ekki gerð refsing nema áfengi í blóði mælist yfir 0,5‰. Í frumvarpinu sem ráðherra lagði fram miðuðu refsimörkin við 0,2‰ en umhverfis- og samgöngunefnd gerði breytingu þar á.
  • Ávana- og fíkniefni – Nýju umferðarlögin gera ráð fyrir því að horfið verði frá þeirri framkvæmd að ávana- og fíkniefni sem mælast í þvagi geti verið grundvöllur refsingar en samkvæmt nýju lögunum telst ökumaður aðeins vera undir áhrifum slíkra efna ef þau mælast í blóði.
  • Snjalltæki – Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn.
  • Hjálmaskylda – Skylda barna til að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar er færð í lög og nær nú til barna yngri en 16 ára í stað barna yngri en 15 ára.
  • Hjólreiðar – Ýmis ný ákvæði eru í umferðarlögunum um hjólreiðar. Kveðið er á um að þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar. Þá skal hjólreiðamaður almennt halda sig lengst til hægri á hægri akrein. Þó er óhætt að hjóla á miðri akrein á vegi þar sem hámarkshraði er ekki meiri en 30 km/klst. Þá er hjólreiðamönnum gert að sýna sérstaka aðgát við vegamót og þar sem akbraut og stígar skerast. Hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir. Ökumaður sem ætlar að beygja þvert á hjólarein skal veita umferð hjólreiðamanna á reininni forgang.
  • Rauð ljós – Í fyrsta sinn verður í lögum lagt bann við akstri gegn rauðu ljósi en slíkt bann hefur hingað til aðeins verið í reglugerð.
  • Akstur í hringtorgum – Sett eru sérstök ákvæði um akstur í hringtorgum. Þannig er lögfest að  ökumaður í ytri hring skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Þá skal ökumaður í hringtorgi, sem skipt er í tvær akreinar, velja hægri akrein (ytri hring), ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum. Óheimilt er að skipta um akrein við hring eða á milli ytri og innri hrings í hringtorgi.
  • Sorp úr ökutækjum – Í lögunum er lagt bann við því að fleygja sorpi út úr ökutæki eða skilja eftir á vegi sorp eða annað sem óhreinkar veg eða náttúru, jafnvel þótt það hafi ekki í för með sér hættu eða óþægindi fyrir aðra vegfarendur. Í gildandi umferðarlögum er aðeins lagt bann við því að fleygja eða skilja sorp eftir á vegi það sem getur haft í för með sér hættu eða óþægindi fyrir umferðina.
DEILA