Norðvesturkjördæmi: Vinstri grænir missa þingsætið til Pírata

Eva Pandóra Baldursdóttir.

Sundurliðun á skoðanakönnum MMR, sem birt var í síðustu viku, eftir landssvæðum sýnir að fylgi Vinstri grænna á Vesturlandi og Vestfjörðum er aðeins 6,7%  en flokkurinn fékk 17,8% í Norðvesturkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum. Það er tap upp á 11,1%.

Í greiningunni er gamla Norðurland vestra, Húnavatnssýslur og Skagafjörður flokkuð undir Norðurland með Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Það getur leitt til skekkju í mati á fylgi flokkanna í Norðvesturkjördæmi. Flokkar sem eiga meira fylgi á Norðurlandinu geta því verið vanmetnir ef aðeins eru skoðaðar tölurnar fyrir Vesturland og Vestfirði og á sama hátt geta þeir verið ofmetnir ef fylgi þeirra er minna á Norðurlandinu.

En samkvæmt svæðisgreiningu MMR fyrir Vesturland og Vestfirði þá eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur nánast með sama fylgi og í kosningunum 2017. Framsókn mælist með 18,9% en var með 18,4% í kosningunum 2017. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,2% en fékk 24,5% fyrir tveimur árum. Samfylkingin hækkar lítillega mælist með 11% fylgi en fékk 9,7% í kosningunum.

Miðflokkur og Píratar bæta við sig

Miðflokkurinn bætir við sig 3,5% og fer úr 14,2% upp í 17,7%. Píratar gera enn betur og fá skv. könnuninni 11,5% og bæta við sig nærri 5%.

Viðreisn mælist með 4,3% (+1,8%) , Flokkur Fólksins 2,8% (-2,5%) og Sósíalistaflokkurinn mælist með 2,6%.

Píratar vinna þingsæti, Vg tapar

Sé þingsætum skipt samkvæmt þessum tölum fengi Sjálfstæðisflokkurinn 2, Framsóknarflokkurinn 2, Samfylking, Miðflokkur og Píratar eitt hver. Ómögulegt er að spá fyrir um hver fengi jöfnunarsætið. Næstu menn inn yrðu annar maður Miðflokksins og þriðji maður Sjálfstæðisflokksins. Vinstri gænir eru nokkuð fjarri því að fá kjördæmakosinn þingmann, en ekki útilokað að þeir fengju jöfnunarsæti, þótt það sé nokkuð langsótt. Í alþingiskosningunum 2017 fékk Miðflokkurinn jöfnunarsætið.

Frambjóðandi Pírata 2017 var Eva Pandóra Baldursdóttir.

DEILA