Náttúruverndarsamtök Íslands: 3/4 tekna styrkir, þar af helmingur erlendir

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndar-samtaka Íslands.

Náttúruverndarsamtök Íslands eru rekin að mestu leyti með styrkjum. Á síðasta ári námu styrkir 8,5 milljónum króna af 11,5 milljón króna heildartekjum samtakanna.  Árið 2017 var hlufallið svipað, þá voru styrkirnar alls um 8 milljónir króna af 12 milljón króna tekjum.

Athyglisvert er að um helmingur styrkjanna er erlendis frá. Um 4,3 milljónir króna voru erlendir styrkir og 4,2 milljónir króna innlendir styrkir á síðasta ári. Ekki kemur fram í ársreikningi samtakanna sundurliðun styrkjanna eftir gefendum.

Stærsti hluti útgjaldanna er launakostnaður 2018 var 7,6 milljónir króna. Ferðakostnaður var 1,2 milljónir króna, að mestu leyti erlendur ferðakostnaður, Rekstrarkostnaður alls var 12,7 milljónir króna. Starfsmaður samtakanna er formaðurinn Árni Finnsson.

Það hvað styrkir eru stór hluti tekna samtakanna gerir samtökin greinilega nokkuð berskjölduð fyrir þrýstingi frá gefendum um áherslur í starfi samtakanna.

Fjórar  kærur til úrskurðarnefndar

Náttúrurverndarsamtök Íslands hafa beitt sér mjög gegn málum á Vestfjörðum. Nýlega sendur þau, ásamt þremur öðrum samtökum, kæru til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál varðandi rannsóknir vegna Hvalárvirkjunar og krefjast þess að framkvæmdir verði stöðvaðar og leyfið fellt úr gildi.

Þá hafa Náttúruverndarsamtök Íslands staðið að þremur kærum til úrskurðarnefndarinnar varðandi laxeldi á Vestfjörðum. Í janúar 2018 voru sendar tvær kærur, í annari var krafist ógildingar rekstrarleyfis og frestun réttaráhrifa á leyfi Arctic Sea Farm fyrir 4.000 tonna ársframleiðslu í Dýrafirði á laxi og/eða regnbogasilungi og í hinni var krafist ógildingu á starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir 6.800 tonna framleiðslu ASF í Patreks- og Tálknafirði. Gerð var krafa um að réttaráhrifum verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar.

Þriðja kæran var í maí 2018. Þá var kærð ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðanefnar umhverfis- og auðlindamála vegna breytingar á staðsetningu eldissvæða í Patreksfirði fyrir laxeldi Arctic Sra Farm  og Fjarðalax fyrir samtals 17.500 tonna ársframleiðslu af laxi sé ekki háð umhverfismati. Krafist var ógildingar á ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Tvö dómsmál

Í janúar 2019 höfðuðu Náttúruverndarsamtök Íslands ásamt fleirum mál á hendur Arctic Sea Farm og íslenska ríkinu til ógildingar rekstrarleyfi til bráðabirgða skv. lögum um fiskeldi nr. 71/2008. Sömu aðilar höfðuðu eins mál á hendur Fjarðalax.

Engin svör

Í janúar var óskað eftir skýringum samtakanna á andstöðu þeirra við laxeldi í sjó. Fengust þau svör frá formanni samtakanna Árna Finnssyni að af persónulegum ástæðum væri ekki  hægt að svara því að svo stöddu en svör kæmu eins fljótt og því yrði við komið.

Þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni síðan hafa engin svör fengist.

Ekki er að finna ályktanir eða samþykktir samtakanna sem varpa ljósi á þessa stefnu samtakanna varðandi laxeldi né heldur varðandi Hvalárvirkjun. Reyndar eru engar upplýsingar að hafa um starf samtakanna síðan í ágúst 2016 þegar birt eru drög að skýrslu stjórnar fyrir aðalfund 2016.

Formaður samtakanna hefur ekki svarað fyrirspurn um aðalfund sem auglýstur var 5. júní 2019. Spurt var um ályktanir og stjórnarkjör.

 

 

 

DEILA