Náttúrubarnahátíð á Ströndum helgina 19.-21. júlí

Náttúrubarnahátíðin verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi, þar sem Náttúrubarnaskólinn er til húsa.

Náttúrubarnahátíðin er fjölskylduhátíð og verður aðgangur ókeypis.

Það er einnig frítt fyrir hátíðargesti að gista í tjaldi á Kirkjubóli sem er rétt hjá Sævangi. Einnig er frábært tjaldsvæði á Hólmavík og ýmsir gististaðir í nágrenninu.

Veitingasala er á Sauðfjársetrinu (Kaffi Kind) alla helgina og er þar nóg úrval af allskonar réttum bæði fyrir grænkera og aðra.

Dagskrá hátíðarinnar:

Föstudagur 19. júlí
17:00 Fuglafjör: Trítlað um teistuvarpið.
18:00 Formleg setning hátíðarinnar. Gengið að veðurupplifunarstöðinni og framkvæmdur veðurgaldur til að tryggja gott veður alla helgina.
18:00 Hægt að kaupa súpu og grillaðar pylsur (bæði grænmetis og ekki) í Sævangi.
19:00 Mögnuð töfrasýning með Jóni Víðis.
20:00 Náttúrubarnakvissið, æsispennandi spurningaleikur fyrir alla fjölskylduna. Hægt verður að kaupa vöfflur í Sævangi.
22:00 Melasysturnar Ellen og Árný Björnsdætur halda uppi fjörinu í fjörusöng.

Laugardagurinn 20. júlí
11:00 Náttúrujóga með Esther Ösp hjá Hvatastöðinni. Fullkomin leið til að komast í tengsl við sitt innra náttúrubarn.
12:00 Undrin á plánetunni jörð, stórskemmtilegt spjall með Stjörnu Sævari fyrir börn og fullorðna.
13:00 Náttúra og vísindi! Básar þar sem hægt er að ganga á milli og kynnast ólíkum rannsóknum sem tengjast náttúrunni, sjónum, gróðri og dýralífi. Strandahestar verða á staðnum, opið hús í tilraunastofunni og plastdýragarðinum. Súpa og grillaðar pylsur (bæði kjöt og grænmetis).
15:00 Tilraunasmiðja með Jóni Víðis.
16:30 Náttúrupopp með Ellen Scheving, poppað yfir opnum eldi.
17:15 Leikhópurinn Miðnætti sýnir stórskemmtilega tón- og leiklistarbræðinginn Sögur af nautum.
18:00 Hægt að kaupa grillaðar pylsur og súpu (bæði grænmetis og ekki) í Sævangi.
20:00 Tónleikar og skemmtun með Jónsa í Svörtum fötum.
21:30 Drauga- og tröllasögur í sagnahúsinu!

Sunnudagurinn 21. júlí
11:00 Skemmtilegt spjall um sjósund með Pétri Húna og Hafdísi Hrund og kjörið tækifæri til að prófa að skella sér í sjóinn.
13:00 Sirkus Íslands skemmtir í Sævangi!
13:30 Spennandi náttúrusmiðja með Arfistanum Ástu Þórisdóttur.
15:00 Leikjasmiðja með Jóni Víðis á útivellinum í Sævangi.
16:00 Fjöruplokk! Plokkað í fjörunni við Sævang.

Náttúrubarnahátíðin árið 2019 er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Barnamenningarsjóði og Orkubúi Vestfjarða.

DEILA