Miðflokkurinn með mest fylgi á landsbyggðinni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Í greiningu á nýjustu könnun MMR um fylgi við stjórnmálaflokkana kemur fram að Miðflokkurinn hefur mest fylgi utan við höfuðborgarsvæðið. Er fylgi við flokkinn um 21-22% á landsbyggðinni í heild. Miðflokkurinn er stærstur flokka á Austurlandi og Suðurlandi. Á Suðurlandi er flokkurinn með 28% fylgi og 26% á Austurlandi. Minnst er fylgi Miðflokksins á Norðurlandi 15%. Á Norðurlandi og Vesturlandi/Vestfjörðum er Miðflokkurinn í þriðja sæti á eftir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Formaður Framsóknar í vanda

Næststærsti flokkurinn á landsbyggðinni er Sjálfstæðisflokkurinn með um 19-20% fylgi. Það er nokkuð jafnt og sveiflast frá 17-24%. Hæst er það á Vesturlandi/Vestfjörðum. Þá kemur Framsóknarflokkurinn með 15-16%. Hann er með nærri 20% fylgi í einstöku landshlutum, nema á Suðurlandi, kjördæmi formannsins, en þar er fylgið aðeins 7%. Fylgi við Pírata og Samfylkingu er mjög svipað yfir landsbyggðina um 11%. Vinstri grænir eru aðeins með 8 – 9% fylgi og aðrir minna.

Samfylkingin: flokkur gamla fólksins

Svörunin í könnun MMR er einnig greind eftir aldri.  Það kemur óvænt niðurstaða í ljós. Samfylkingin hefur mest fylgi þeirra sem eru 68 ára og eldri. Þar er fylgið 25%. Miðflokkurinn er næstur með 23% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er með tæp 15% og aðrir flokkar ná ekki 10% í þessum aldurshópi.

Meðal kjósenda yngri en 30 ára hafa Píratar mest fylgi 21%, þá Sjálfstæðsiflokkur með 18% og Vinstri grænir og Viðreisn með 13% hvor flokkur. Þar er gengi Samfylkingar aðeins 9% og Miðflokksins 8%.

DEILA