Messa í Ögurkirkju laugardaginn 20. júlí kl. 11:00

Ögurkirkja.

Kirkja hefur verið í Ögri frá fyrstu árum kristni á Íslandi og alla tíð í eigu Ögurbænda. Núverandi kirkja var byggð árið 1859 og á því 160 ára afmæli í ár en hún var friðuð árið 1990.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á kirkjunni síðastliðin fimm ár með stuðningi frá Minjastofnun og styrkjum úr Húsafriðunarsjóði. Hefur Magnús Alfreðsson trésmiður frá Ísafirði unnið hörðum höndum við endurbætur á kirkjunni og með yfirgripsmikilli þekkingu og dugnaði gert frábæra hluti. Telst viðgerðum utandyra nú að fullu lokið.

Mikil prýði er að Ögurkirkju eftir endurbæturnar og fegrar hún umhverfið í Ögurvík. Það skiptir máli að gömlum húsum sé sýnd virðing og að þau falli að umhverfinu sínu og það á svo sannarlega við um kirkjuna í Ögri.

Til að fagna 160 ára afmæli Ögurkirkju og lokaáfanga í viðgerð utandyra boðar sóknarnefnd til messu laugardaginn 20. júlí næstkomandi kl. 11:00. Prestar séra Ásta Ingibjörg Pétursdóttir sóknarprestur og séra Hjálmar Jónsson fyrrv. Dómkirkjuprestur.

Fyrir hönd sóknarnefndar Ögurkirkju,

Guðmundur Halldórsson frá Ögri

DEILA