Makríl úthlutað í hlutdeild ótímabundið : 100 milljarðar króna úthlutun

Eitt af lokaverkefnum Alþingis í júní var að samþykkja lög um að  úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum. Aflahlutdeildin er ótímabundin  eins og hlutdeild í öðrum fiskistofnum sem kvótasettir voru með lögunum frá maí 1990. Með útgáfu framseljanlegrar aflahlutdeildar verður veiðirétturinn að verðmætri söluvöru.

Nær öllum kvóta er úthlutað samkvæmt sömu framsals reglum og gildir almennt. Þar með er opið fyrir viðskipti með aflahlutdeildinni og aflamarkinu. Haft var samband við kvótasala og bar þeim saman um að það tæki nokkrar vikur fyrir aðila að finna út markaðsverðið á heimildunum og því treysti sér enginn til þess að setja fram mat á væntanlegu markaðsverði.

Meta þarf væntanlega verðþróun á erlendum mörkuðum á næstu árum svo og stærð makrílstofnsins og göngumynstur hans hvað Íslandsmið varðar. Frá því að makrílveiðar hófust að einhverju marki árið 2008 hafa veiðarnar verið nokkuð stöðugar að magni til frá 112 þúsund tonn á ári til 160 þúsund tonn.

Sjávarútvegsráðherra hefur uthlutað 140 þúsund tonna kvóta á þessu ári.

Ef stuðst er við opinber útgefin verðhlutföll milli makríls og þorsks  og því að verð á aflahlutdeild í þorski er um 3.200 kr/kg þá má ætla að verðið á makrílhlutdeild sé um 700 kr/kg. Það gefur um 98 milljarða króna verðmæti hlutdeildanna sé miðað við 140 þúsund tonna árlega veiði.

Axel Helgason, formaður stjórnar Landssambands smábátaeigenda, segir í Fréttablaðinu 19. júní sl.  kvótann á makríl vera á milli 65 og 100 milljarða króna virði.

Þá hefur Hæstiréttur viðurkennt bótarétt fyrirtækja sem fengu um árabil minna úthlutað af makríl en þriggja ára veiðireynsla þeirra sagði til um. Bókakröfur hafa ekki verið lagðar fram en munu hlaupa á milljörðum króna, jafnvel tugmilljörðum króna. Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda telur að þær geti numið allt að 35 milljörðum króna. Þessar háu fjárhæðir byggjast auðvitað á því að makríllinn er verðmætur fiskur og gefur góðar tekjur í aðra hönd.

Af veiðum á makríl er á þessu ári greitt í ríkissjóð 3,55 kr/kg í veiðigjald.

DEILA