Laxveiðin 2018: 958 laxar á Vestfjörðum

Yfirlit yfir stangveiðina á landinu frá 1974.

Hafrannsóknarstofnun  hefur birt samantekt sína um lax- og silungsveiði á landinu á síðasta ári. Sumarið 2018 var heildarstangveiði samkvæmt skráningu á laxi í ám á Íslandi alls 45.291 laxar.
Af þeim var 19.409 (42,9%) sleppt aftur og var heildarfjöldi landaðra stangveiði veiddra laxa (afli) því 25.882 laxar. Af veiddum löxum voru 36.044 laxar með eins árs sjávardvöl (smálaxar) (79.6%) og 9.247 (20,4%) laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri (stórlaxar).

Líkt og undanfarin ár var umtalsverð veiði á laxi í ám þar sem veiði byggist á sleppingu
gönguseiða og var hún alls 9.109 laxar en auk þess var umtalsverðum fjölda laxa (19.409)
sleppt aftur.

958 laxar á Vestfjörðum

Veiðin var mest á Vesturlandi en þar veiddust 16.143 laxar.  Á Vestfjörðum veiddust 958 laxar og var 206 fiskum sleppt, fjöldi í afla var 752 laxar og þyngd afla var 1.983 kg.

Þrjár efstu veiðiárnar á Vestfjörðum voru Langadalsá með 237 laxa, Laugardalsá með
199 og Fjarðarhornsá í Hrútafirði með 112 laxa.

Þá veiddust 1257 bleikjur og 63 urriðar á Vestfjörðum. Bleikjuveiðin var langmest í Gufudalsá, þá Skálmardalsá og Þorskafjarðará í Barðastrandarsýslu. Þá var nokkur bleikjuveii í Selá í Steingrímsfirði og Miðdalsá. Nær 2/3 urriðaveiðinnar var í Þorskafjarðará.

Meðalveiðin frá 1984: 287 lxar í Laugardalsá

Í veiðiskýrslunni eru einng birtar tölur um veiði frá 1984 og reiknuð út meðalveiðin frá þeim tíma til 2018. Mest er meðalveiðin á Vestfjörðum í  Laugardalsá 287 laxar. Næst er Langadals á með 205 laxa að meðaltali og Hvannadalsá nær 127 löxum að meðaltali. Alls eru þessar þrjár laxveiðiár í Ísafjarðardjúpinu með 619 laxa að meðaltali á ári.

Aðrar ár á Vestfjörðum eru aðeins Fjarðarhornsá með 60 laxa og 9 ár í Strandasýslu frá Steingrímsfirði og suður sýsluna í Hrútafjörð með 22  til 82 laxa að meðaltali á ári yfir tímabilið. Þar af eru þrjár laxveiðiár í Steingrímsfirðinum, Selá, Staðará og Víðidalsá. Fjórða áin Hrófá er ekki langt undan.

 

 

 

DEILA