Lækkun fasteignagjalda í Ísafjarðarbæ

Fimmtudaginn 20. júní síðstliðinn sat ég bæjarstjórnarfund þar sem á dagskrá var tillaga frá meirihluta bæjarráðs um að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda í Ísafjarðarbæ. Fasteignamat í Ísafjarðarbæ hefur undanfarið hækkað ár frá ári sem er í sjálfu sér bara mjög ánægjulegt. Þar sem álagningarprósentunni hefur verið haldið óbreyttri þá hafa fasteignagjöldin sem fjölskyldur og fyrirtæki greiða líka hækkað jafnt og þétt. Svo sannarlega hafa gjöldin ekki hækkað í prósentum enda er hlutfallið jafnhátt og leyfilegt er samkvæmt lögum. Það greiðir hins vegar enginn neitt með prósentum heldur krónum og því hafa álögur á fjölskyldur og fyrirtæki aukist samhliða. Í nýbirtu fasteignamati kemur fram hækkun upp á u.þ.b. 10% í Ísafjarðarbæ sem myndi að óbreyttu þýða 10% hækkun fasteignagjalda á árinu 2020.

En fólk á leigumarkaði?

Ég hef heyrt fólk segja að þessi ákvörðun bæjarstjórnar gagnist ekkert þeim sem búa í leiguhúsnæði. Fasteignagjöld eru með stærri kostnaðarliðum í rekstri fasteigna og mér finnst einhvern veginn afar ósennilegt að ef sá kostnaðarliður yrði hækkaður um 10%, eins og nú hefði gerst hér í bæ að óbreyttu, þá myndi leigusali alfarið taka þá hækkun á sig en ekki velta henni út í leiguverðið. Sumir hafa líka spurt mig hvernig bæjarstjórn ætli að fara að því að mæta þessari tekjuskerðingu. Því er til að svara að hér er ekki verið að lækka tekjur heldur verið að sleppa því að hækka álögur enn einu sinni. Það mun þýða að fjölskyldurnar halda eftir stærri hluta en ella af fyrirhugaðri launahækkun, sem mér a.m.k. finnst mjög ánægjulegt, og fyrtækjunum er gert auðveldara að takast á við fyrirhugaðar launahækkanir án þess að þurfa að hækka verðlag. Skoðum svo aðeins fasteignagjöld sem slík. Ef laun fólks hækka þá hækkar vissulega útsvarið sem greitt er en fólkið heldur líka sjálft eftir fleiri krónum en áður. Ef fasteignamat hækkar og álagningarprósenta fasteignagjalda helst óbreytt þá aukast útgjöld heimila og fyrirtækja en tekjurnar gætu jafnvel verið að lækka á sama tíma. Svo má alveg velta því fyrir sér hvort einhver hafi heyrt stjórnmálamann hafa áhyggjur af því hvernig fólk eigi að mæta þeirri útgjaldaaukningu sem felst í hækkuðum fasteignagjöldum? Nei, það er fjölskyldnanna og fyrirtækjanna að finna út úr því. Að sama skapi er það auðvitað vinna okkar sem þið kusuð til að stjórna bæjarfélaginu ykkar að finna leiðir til að spila úr þeim tekjum sem bæjarsjóður hefur.

Lífskjarasamningarnir

Fyrir nokkru síðan voru undirritaðir mjög merkilegir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum sem hafa fengið nafnið Lífskjarasamningarnir. Einn angi af þeim er yfirlýsing frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem segir: “Til að stuðla að verðstöðugleika mun Samband íslenskra sveitarfélaga mælast til þess við sveitarfélögin að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda. Einnig mun sambandið mælast til þess við sveitarfélögin að á árinu 2020 muni gjöld á þeirra vegum hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri”. Það væru því kaldar kveðjur frá Ísafjarðarbæ að hækka fasteignagjöld um 10% sem innlegg í þessa kjarasamninga. Það var mér því mikið ánægjuefni að vera hluti af þeim fimm bæjarfulltrúum sem samþykktu ofangreinda tillögu. Bæði er hér um að ræða rof á keðjubundinni hækkun á álögum og sveitarfélagið mitt er að axla sína ábyrgð í tengslum við nýgerða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

DEILA