Í gær var haldið á Ísafirði Íslandsmeistaramót í Ólympískum fjallahjólreiðum (XCO) og opið Vestfjarðamót unglinga í sömu grein. Keppt var á útivistarsvæði Ísafjarðar á Seljalandsdal, en þar hafði verið útbúin liðlega 4 km löng braut.
Það var Vestri hjólreiðar sem hafði veg og vanda af undirbúningi og framkvæmd keppninnar. Keppnisstjóri var Heiða Jónsdóttir. Hún sagði í samtali við Bæjarins besta að það hefði skipt sköpum hvað margir Ísfirðingar hafa reynslu af skipulagningu og mótshaldi og þá einkum af skíðamótum eins og Fossavatnsgöngunni og að þeir voru boðnir og búnir til að aðstoða.
Ólympískar fjallahjólreiðar snúast um að keppendur hjóla hringi í nokkuð tæknilegri hjólarbaut sem er 4-6km löng, Hringjafjöldi miðast út frá því að fyrsti keppandi er um það bil 90mín í keppninni.
„Undirbúningurinn á brautinni var töluverður enda ansi stutt á Vestfirska grjótið. Viðar Starfsmaður skíðasvæðisins auk Kristjáns Jónssonar sáu um að fínisera og brautina og klára merkingar. Brautin sem keppt var í var lögð á gögnuskíðasvæðinu upp á Seljalandsdal, og liggur upp niður stalla. Þeir sem þekkja til þá var meðal annars hjólað upp Mazzabeygjuna, yfir Eríksmýrina, niðurmeð Buná undir Sandfellið og komið niður á Harðarplanið áður en farið var í gegnum marklínuna. Hægt var að fylgjast vel með keppendum í brautinni frá gönguskíðaskálanum.“
„Það voru 43 keppendur skráðir til leiks og tóks keppnishaldið ótrúlega vel“ segir Heiða.
Flestir keppenda voru að sunnan, frá félögum með öflugar hjóladeildir. Keppt var í nokkrum flokkum. Í svokölluðum elite flokki karla sigraði Ingvar Ómarsson frá Breiðablik og í kvennaflokknum var fyrst María Ögn Guðmundsdóttir frá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, en ísfirðingar geta með nokkrum rétti eignað sér hana.
Eldri keppendur kepptu í meistaraflokki og þar varð Atli Þór Jakobsson frá Vestra í þriðja sæti.
Vestfjarðamótið
Eftir Íslandsmeistaramótið í Ólympískum fjallahjólreiðum fór fram opið Vestfjarðamót í Fjallahjólreiðum. Sú braut var uþb 2km og voru 6 keppendur sem tóku þátt, flestir héðan af svæðinu. Heiða segir að frábært sé að sjá áhugann hjá þessum krökkum hérna fyrir vestan og greinilegt að íþróttin á sér bjarta framtíð.
Í U15 flokki sigruðu Sverrir Bjarki Svavarsson og Embla Kleópatra Atladóttir. Agla Vigdís Atladóttir sigraði í U13 stúlkna og Sigurður Stefán Ólafsson í U11 drengja og eru þau því Vestfjarðameistarar.
Veitt voru glæsileg verðlaun frá Púkanum, púðabuxur, miði í Skálafell bike park, grifflur úr Craftsport, pizzaveisla í Hamraborg og bíómiðar.
Prófa brautina á morgun kl 20
„Við viljum endilega bjóða heimafólki að koma upp á dal á þriðjudaginn kl 20 með hjólin sín og prófa brautina áður en við tökum niður merkingarnar. Ef fólk treystir sér ekki í að hjólabrautina er líka frábært að hjóla gönguskíðaslóðana og kynna sér svæðið. Þetta svæði bíður upp á svo mikla sumarútivistamöguleika og til að toppa svæið þá liggur það svo vel í skjóli fyrir norðanáttinni. Eina sem mætti kannski laga er að tenga Skíðaveginn við Botnsheiðina það vantar ca 200-400 metra upp á að slóðarnir nái saman – hvaða snilling getum við blikkað í það verkefni? ;)“ segir Heiða Jónssdóttir að lokum.