Ísafjörður: ekki ástæða til aðgerða vegna vatns við Urðaveg

Myndir úr skýrslu Eflu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að fara í  aðgerðir vegna  ofanvatns og bleytu í lóðum við Miðtún 41-45. Verkfræðistofan Efla telur mögulegt að tjónið megi rekja til varnargarða sem gerðir voru neðan við Gleiðarhjalla og Kubba. Ofnaflóðanefnd hefur samþykkt fyrir sitt leyti aðgerðir við Miðtún sem kosta um 2,5 milljónir króna.

Ísafjarðbær hafði fengið Eflu til að athuga hvort vatnssöfnun neðan ofanflóðavarna undir Gleiðarhjalla í görðum við Urðarveg, Miðtún, Hlíðarveg og Hjallaveg stafaði af framkvæmdum við ofanflóðavarnir.

Var það niðurstaða Eflu að svo gæti verið við Miðtún en ekki annars staðar.

Halldór Sveinbjörnsson, íbúi við Urðarveg  er ekki sammála þessu mati. Halldór sagði í samtali við Bæjarins besta að íbúar væru orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi og skilningsleysi bæjaryfirvalda síðan garðarnir voru gerðir. hann segir að garðarnir hafi verið þurrir áður en varnargarðarnir voru gerðir. Nú sé svo komið að börnin geti ekki farið út í garð til þess að leika sér vegna vatnsaga í görðunum. Þá eru sólpallar skemmdir eftir vatnið.

Halldór vill að bærinn finni orsökina og geri viðeigandi ráðstafanir. Halldór óskaði eftir fundi með bæjarráði en það fól bæjarstjóra að ræða við hann.

Ekki kemur fram í bókuninni hvaða afstöðu bæjarstjóri á að kynna til erindis íbúa við Urðarveg.

DEILA