Innflytjendur eru bónus

Latneska orðið bonus þýðir góður.  Í seinni tíð hefur þetta orð einnig verið notað yfir kaupauka.  Innflytjendur eru bónus.  Þeir eru góðir fyrir land og þjóð og þeir eru einnig kaupauki fyrir okkur öll.  Í þessari grein verða færð rök fyrir báðum fullyrðingum.

Sjálfsagt hvá einhverjir yfir þessum fullyrðingum.  Við erum orðin svo vön því að heyra frá stjórnmálamönnum bæði í Evrópu og Ameríku að innflytjendur sé stórkostlegt vandamál.  Hið rétta er að þeir eru ábati.  Stjórnmálamenn hafa hins vegar komist að því að mörgum hvítum Evrópumönnum og Ameríkumönnum stendur stuggur eða ógn af innflytjendum.  Innflytjendur tala framandi tungumál, koma úr annarri menningu og við eigum stundum erfitt með að skilja þá.  Allt, sem manneskjan skilur ekki eða þekkir, það tortryggir hún.  Hið óþekkta er ógnvænlegt.  Við lærðum það strax í gömlu góðu ævintýrunum að skógurinn og heiðin, hið ókunna umhverfi byggi yfir hættum.  Á þetta spila stjórnmálamenn.  Þeir notfæra sér eðlislæga hræðslu manneskjunnar við hið óþekkta og reyna að telja væntanlegum kjósendum sínum trú um að sérstök ógn stafi af innflytjendum eða þeim, sem séu öðru vísi.  Hitler hrópaði:  „Die Juden sind unserer ungluck!“  Hann bjó til sameiginlegan óvin, sem hann taldi þýsku þjóðinni trú um að henni stafaði ógn af.  Hið rétta var að Gyðingar voru vel innan við 1% af mannafla Þýskalands þegar nazistar náðu völdum.  Og öfugt við það, sem áróður þjóðernissinna hélt fram, þá voru fæstir Gyðinga í Þýskalandi ríkir bankamenn.  Öðru nær, þeir tilheyrðu nær allir millistétt og stunduðu aðallega handverk eins og skraddarasaum eða voru með litlar verslanir.

Stjórnmálaflokkar af þessu tagi eru gjarnan nefndir populistar eða þjóðernissinnar.  Þeir eiga það sameiginlegt með fasistum þriðja áratugarins að það er yfirleitt mjög erfitt fyrir stjórnmálafræðinga að staðsetja þá í litrófi stjórnmálanna eða á línunni frá hægri til vinstri.  Það er vegna þess að stefna þeirra er í raun hentistefna.  Þeir haga seglum eftir vindi og stökkva á vinsæl mál því helsta markmið þeirra er að ná völdum.  Í nútímanum er Trump Bandaríkjaforseti gott dæmi um þetta.  Trump talar gegn innflytjendum, enda þótt eiginkona hans, Melanija Knavs, sé innflytjandi frá Slóveníu.  Trump vill loka landamærunum.  Hagtölur og rannsóknir sýna hins vegar að hagvöxtur í syðri ríkjum Bandaríkjanna er meðal annars drifinn áfram af innflytjendum.  Þeir eru ódýrt vinnuafl og eru tilbúnir að ganga í öll störf.  Þeir eru duglegir og iðjusamir.  Já, og innflytjendur eru hugmyndaauðugir.  Vissir þú að 52% af öllum nýjum fyrirtækjum, sem sett voru á fót í Silicon-dalnum í Kaliforníu á þessari öld, voru stofnuð af innflytjendum?  Fólk, sem flytur á milli landa, er gjarnan frumkvöðlar vegna þess að það þorir að taka áhættu.  Innflytjendur eru góðir fyrir land og þjóð.

Stjórnmálamenn tala gjarnan um kostnað af innflytjendum því þeir þurfa oft aðstoð eins og við að læra tungumálið, heilsugæslu o.s.frv.  En það er miklu meiri kostnaður við hvern einn Íslending heldur en útlending, sem kemur hingað til landsins.  Í raun liggur þetta í augum uppi ef við hugsum okkur aðeins um.  Hinn venjulegi Íslendingur, sem fæddur er hér heima, þarf leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og heilsugæslu alveg þar til hann er orðinn rúmlega tvítugur.  En stjórnvöld telja það ekki eftir sér því þau vita að þetta er fjárfesting, sem þau fá til baka þegar Íslendingurinn fer að vinna.  En lítum þá á innflytjandann.  Tvítugur maður frá Afríku kemur til Íslands.  Eftir stutt íslenskunámskeð fer hann að vinna og borga skatta til samfélagsins, sem hefur þurft sáralítið að leggja til menntunar hans.  Og innflytjandinn er tilbúinn að vinna alls kyns störf, jafnvel störf, sem Íslendingum finnast ekki spennandi.  Og svo til viðbótar má reikna með að þessi innflytjandi vilja gjarnan græða peninga og koma undir sig fótunum.  Hann er því líkt og raunin er með flesta innflytjendur reiðubúinn að taka áhættu og stofna fyrirtæki.  Hafið þið ekki tekið eftir því hversu margir innfleytjendur stofna fyrirtæki á Íslandi, matsölustaði og fleira?   Innflytjendur eru hvalreki eða bónus fyrir hagkerfið Ísland.  Hluti af íslenskum hagvexti er innflytjendum að þakka.  Þetta er staðreynd, sem lýðskrumarar nefna aldrei.  Þeir nefna heldur ekki þá staðreynd að innflytjendur leggja gjarnan mjög mikið til samfélagsins bæði í formi hagvaxtar og eins fjölbreytileika.  Hugsið um allt erlenda tónlistarfólkið, sem hefur komið til Íslands og göfgað íslenskt tónlistarlíf!

Eitt hátækniland í heiminum hefur verið sérstaklega lokað fyrir útlendingum.   Þar eru mjög fáir útlendingar.  Ef innflytjendur væru vandamál þá mætti gera ráð fyrir því að umrætt land væri í bullandi hagvexti.  Svo er ekki.  Hagvöxtur þessa lands hefur verið miklu minni en Evrópulanda og flestra annarra landa, sem það ber sig saman við.  Umrætt land skuldar meira en USA.  Hvaða land skyldi þetta vera?  Jú, þetta er Japan.  Þar hafa menn vaknað upp við vondan draum.  Í Japan hafa menn snúið við blaðinu og vilja laða að innflytjendur.  Fyrir nokkrum árum síðan var hópur Japana hér á Ísafirði og þeir voru að kynna land og þjóð.  Þeir vilja gjarnan fá ungt fólk til sín.

Innflytjendur eru bónus.  Mannkynssagan kennir okkur það að þar sem verður menningarblöndum þar dafnar ekki aðeins atvinnulíf og nýsköpun heldur blómstrar líka menningarlífið.  Innflytjendur eru bónus  í svo mörgum skilningi þess orðs.  Að taka vel á móti innflytjendum er tvöfaldur ábati.  Það er gott fyrri landið okkar.  Svo er það líka hluti af því að vera manneskja, sýna mannúð, sýna öðrum vináttu og hjálpsemi.  Slíkt borgar sig.  Það er kærleikurinn, sem sigrar heiminn, – ekki hatrið.  Eða eins og Jesús Kristur sagði:  Elskaðu náungann eins og sjálfan þig.

Góður vinur minn, sem lærði eðlisfræði, stóð alltaf á haus í öllum partýjum þegar hann hafði skellt í sig þriðja glasinu.  Hann kvaðst gera það til að fá nýja sýn á umhverfið.  Ég held að stundum sé gott að horfa á vandamál heimsins út frá nýju og óvæntu sjónarhorni.  Það var einmitt það sem heimspekingar eins og Sókrates og Jesús gerðu.  Þeir horfðu á lífið og veröldina með augun kærleikans og gagnrýnnar skynsemi.  Skoðum sjálf hlutina og veltum þeim fyrir okkur.  Látum ekki fordóma valdasjúkra manna segja okkur hvað við eigum að hugsa.  Hugsum sjálf, rökræðum og hyggjum að staðreyndum.  Og minnumst þess að innflytjendur eru 20% af vinnuafli á Vestfjörðum.  Innflytjendur eru bónus.

Magnús Erlingsson, prestur á Ísafirði.

DEILA