Hvalá: þrjú kæruatriði, fimm kærendur og sjö kærur

Fyrir úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál lágu í gær sjö kærur frá fimm aðilum um þrjú efni varðandi Hvalárvirkjun.

Einn aðili kærði öll þrjú atriðin en fjórir aðilar kærðu leyfi fyrir vinnuvegum og efnistöku.

Deiliskipulag er ekki framkvæmdaleyfi

Fyrsta kæruatriðið er deiliskipulag  fyrir fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar sem hreppsnefndin hafði samþykkt í mars 2019. Það voru 10 landeigendur að Drangavík sem kærðu skipulagið. Krafist var að ákvörðunin yrði felld úr gildi og Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulags verði frestað meðan úrskurðarnefndin væri að fjalla um kæruna.

Úrskurðarnefndin segir að deiliskipulag sé ákvörðun sem feli ekki í sér heimild til þess að hefja framkvæmdir heldur þurfi að koma til sérstök stjórnvaldsákvörðun, t.a.m. um framkvæmdaleyfi, sem svo er kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar.

Framkvæmdaleyfin kærð

Kærð voru tvo framkvæmdaleyfi. Annars vegar leyfi til þess að gera vinnuvegi og efnistaka vegna rannsókna og hins vegar framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi á þjóðvegi F649 Ófeigsfjarðarvegi. Það vor landeigendur Drangavíkur sem kærðu viðhald Ófeigsfjarðarvegarins og fimm aðilar kærðu leyfi til að gera vinnuvegi og taka efni úr námum. Þessir fimm kærendur eru landeigendur Drangavíkur, ÓFEIG, fjögur náttúruvernarsamtök (Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands,Rjúkandi og ungir umhverfissinnar), landeigendur Seljaness og loks eigandi Dranga.

Um þetta fjallar úrskurðarnefndin saman og segir í rökstuðningi sínum um umræddar framkvæmdir í sumar að umfang og eðli þeirra framkvæmda sé þannig að nefndin telji ekki hættu til staðar á óafturkræfu tjóni þótt ekki verði síðar af virkjun og því eigi framkvæmdir sumarsins ekki að leiða til stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til efnislegrar meðferðar fyrir nefndinni.

Aðild og kæruréttur

Árneshreppur og Vesturverk ehf gerðu athugasemd við aðild ýmissa kærenda. Um það segir úrskurðarnefndin „Á því verður eftir atvikum tekið á síðari stigum málsmeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.“  Þannig að það verður síðar úrskurðað  hvort einstakir kærendur eigi aðild að málinu og geti í raun lagt fram kærur.

Úrskurðarorð

Nefndin ákvað að úrskurða aðeins  um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda. Tekur hún svo kærunar fyrir núna í framhaldinu og segir í úrskurðinum að gert sé ráð fyrir að málsmeðferð verði lokið innan lögboðins málsmeðferðartíma vegna viðamikilla mála eða í öllu falli áður en framkvæmdir hefjast að vori eða sumarið 2020.

Úrskurðarorðið er því varðandi þessi þrjú kæruatriði:

Úrskurðarorðið er: Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa ákvörðunar hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar.

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli ákvörðunar hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun.

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli ákvörðunar hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna viðhalds á þjóðvegi 649, Ófeigsfjarðarvegi.

 

 

 

DEILA