Hvalá: Ófeig kærir líka

Sif Konráðsdóttir, stjórnarformaður Ófeigs.

ÓFEIG náttúruvernd hefur sent inn kæru til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Kærð er ákvörðun Árneshrepps (leyfisveitanda) um að heimila einkahlutafélaginu VesturVerki framkvæmdina „gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun“.

ÓFEIG náttúruvernd krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar.

Í kæru Ófeigs er vísað til þess að landeigendur að Drangavík og fern náttúruverndarsamtök hafi  gert sömu kröfur fyrir úrskurðarnefndinni og ÓFEIG.

Segir í bréfi Ófeigs að „Rök ÓFEIGAR fyrir kæru eru að öllu leyti þau sömu og fram koma í málsástæðuköflum kærubréfa þessarra og er vísað til þeirra.“

Ófeig rökstyður rétt sinn til kæru með því  að  „ÓFEIG á lögvarinna hagsmuna að gæta skv. 3. mgr. 4. gr. laganna en það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta hagsmunanna sem kæran lýtur að. Uppfylla samtökin skilyrði 3. mgr. og 1. málsliðar 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, þau voru stofnuð 24. október 2018 og voru stofnfélagar 35.“

Í bréfinu segir að lögmæt birting á ákvörðun Árneshrepps um að veita framkvæmdaleyfi hafi ekki farið fram og sé  „því hin kærða ákvörðun ógildanleg þegar af þeirri ástæðu að ákvæðin eru ekki uppfyllt.“

Þá segir  í bréfi Ófeigs að ekki hafi verið „getið kæruheimilda og kærufresta svo sem bæði tilvitnuð ákvæði mæla fyrir um að gert skuli og er ákvörðunin því ógildanlega einnig af þeirri ástæðu.“

Undir kæruna skrifar Sif Konráðsdóttir, stjórnarformaður Ófeigs.

DEILA