Seinni hreinsunarferðin á Hornstrandir var um helgina. Sautján sjálfboðaliðar héldu í Barðsvík með varðskipinu Tý í rjómablíðu. Eftir gott yfirlæti um borð var hafist handa við að koma ruslinu í sekki og svo um borð í varðskipið. Gekk það hratt og vel með vel smurðu samstarfi við áhöfn varðskipsins og var komið í höfn á Ísafirði seint í gærkvöldi.
Þegar búið var að vigta ruslið á hafnarkontórnum í morgun var niðurstaðan um 55 sekkir fullir af plasti og vigtuðu þeir 6,3 tonn. Samtals hafa því safnast í þeim sex hreinsunum sem Hreinni Hornstrandir hafa staðið fyrir, rúmlega 35 tonn af rusli í 7 víkum. Enn eru tvær víkur eftir óhreinsaðar sem áætlað er að taka næsta sumar og síðan er stefnan á að byrja uppá nýtt og taka sömu staði og áður til þess að sjá breytinguna.
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar og áhafnir varðskipanna hafa í gegnum öll þessi ár gert þetta framtak kleift með sínu framlagi og frábæru samstarfi. Áðstandendur átaksins Hreinni Hornstrandir vilja þakka öllum sjálfboðaliðunum og öðrum styrktaraðilum ferðarinnar fyrir.
Styrktaraðilarnir eru: Landhelgisgæslan, Ísafjarðarbær, Umhverfisstofnun, vesturferðir, Aurora Arktika, Borea Adventures Iceland, Amazing Westfjords, Icelandair Hotels, Vesturverk og Gámaþjónustan.