Flateyri: Byggðastofnun viðurkennir frávik í ráðstöfun kvóta

Byggðastofnun hefur viðurkennt að ætlunin hafi verið með flutningi 300 þorskígildistonna Byggðarstofnunarkvóta til Sirrýar ÍS 36 að skipið myndi veiða kvótann að hluta til. Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

Í svarinu segir að „Samkvæmt þeim beiðnum sem liggja fyrir vegna þessara færslna þá mun svo vera en nákvæmari upplýsingar um efndir samninga koma í ljós þegar kvótaárið er búið og við fengið staðfestingar í hendurnar.“

Byggðastofnun hafði áður svarað því til að umræddur kvótatilflutningur hafi verið í þeim tilgangi að skipta kvótanum í tegundir sem betur hentuðu aðilum samnings um aukna byggðafestu á Flateyri.

Jakob Valgeir Flosason framkvæmdastjóri hefur staðfest að Jakob Valgeir ehf hafi að hluta til  breytt 300 þig Byggðastofnunarkvótanum úr aflamarkskvóta yfir í krókaaflamarkskvóta og að hluta til veitt kvótann.

Í samningnum sem Byggðastofnun gerði í fyrra við West Seafood og úgerðarfyrirtækin  Hlunna og ÍS47 á Flateyri segir að samningsaðilar fái 400 þig tonna kvóta á ári í sex ár til þess að vinna a.m.k. 1500 tonn af bolfiski ár hvert á Flateyri og tekið er sérstaklega fram að framsal kvótans til annarra sé óheimil að öðru leyti en því að jöfn skipti á aflamarki í þorskígildum talið séu heimil.

Byggðastofnun hefur nú staðfest að hafa samþykkt að víkja frá ákvæðum samningsins og heimilað Sirrý ÍS 36 að veiða hluta af kvótanum. Ekki er vitað hvar sá fiskur var unninn.

Þá hefur Þorgils Þorgilsson á Flateyri staðfest við Bæjarins besta að Byggðastofnun hafi flutt 50 tonna kvóta á bát hans Eið ÍS 126 sem veiða átti fyrir vinnslu West Seafood. Þorgils segir að hann hafi hætt að veiða áður en náð var 50 tonnum vegna vanefnda West Seafood. Þá hafi Byggðastofnun flutt eftirstöðvar kvótans af Eið ÍS á Sirrý ÍS. Þorgeir segist hafa viljað halda eftir kvótanum sem tryggingu fyrir að fá veiddan afla greiddan en Byggðastofnun hefði hunsað þær óskir og staðan væri enn sú að West Seafood hefði ekki greitt skuldina.

DEILA