Fífustaðadalur: 1000 tonn af koldíoxíði endurheimt

Frá Selárdal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Votlendissjóður áformar að endurheimta votlendi í Fífustaðadal og í Selárdal í Arnarfirði með því fylla aftur með jarðvegi skurði sem á sínum tíma voru grafnir til þess að ræsa og þurrka votlendi í dalnum.

Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs segist gera ráð fyrir að þessi aðgerð muni skila þeim árangri í Fífustaðadal að dregið verði úr losun gróðurhúsaloftegunda um sem svarar 1000 tonnum af koldíoxíði.

Sent hefur verið serindi til Vesturbyggðar og óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til málsins. Bæjarráðið  vísaði erindinu til  skipulags- og umhverfisráðs til frekari umfjöllunar og felur ráðinu að leggja mat sitt á það hvort framkvæmdin geti talist leyfisskyld.

Eyþór segir að ekki sé krafist framkvæmdaleyfis frá Skipulagsstofnun heldur er það á valdi hvers sveitarfélags að ákveða hvort þurfi framkvæmdaleyfi og ef það verður niðurstaðan þá er það sveitarfélagið sem veitir leyfið.

Fyrir tæpum sex árum lagðist Vesturbyggð gegn endurheimt votlendis á Selárdalsjörðinni þar sem tún voru þá nýtt til slægju af nágrannabændum og „Fyrirhugaðar aðgerðir munu draga úr getu íbúa til að stunda búskapog hagsmunir þeirra ganga augljóslega fyrir öllu þegar óskað er eftir afstöðu sveitarfélagsins“ eins og segir í bókun bæjarráðsins.

Fyrir tveimur árum var álið aftur til umræðu í Vesturbyggð og þá  segir í bókun að ekki séu gerðar athugasemdir við endurheimt votlendis svo framarlega að tún séu ekki nýtt og ekki séu áform um nýtingu þeirra.

Eyþór Eðvarðsson segir að meiningin sé að vinna verkið í Fífustaðadal í haust eftir göngur. Eins sé ætlunin að gera hið sama í Selárdal í haust ef samþykki fæst fyrir þvi. „Ef allt gengur eftir þá er útlit fyrir að Vestfirðingar verði með mestan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi í ár“ segir Eyþór.

DEILA