Göngusumarið 2019 hefur gengið mjög vel hjá Ferðafélagi Ísfirðinga en 21 ferð er á ferðaáætlun félagsins þetta árið. Ferðirnar í ár eru líkt og áður fjölbreyttar en flestar þeirra eru gönguferðir. Það er þó líkt og fyrri ár boðið upp á eina hjólaferð. Einnig er á áætluninni að finna a.m.k. fjórar ferðir sem flokkast undir vera svokallaðar fjölskylduferðir og um leið sögugöngur. Reynt var að gæta þess að sem flestir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi og hafa þær af mismunandi erfiðleikastigi (1 – 3 skór).
Laugardaginn 20. júlí býður félagið upp á ferð yfir Fossheiði á sunnanverðum Vestfjörðum. Fossheiðin er forn alfaraleið á milli Arnarfjarðar og Barðastrandar. Gatan er víðast mjög greinileg og greiðfær og vitnar um að þetta er gróin leið í þeim skilningi að hún er mörkuð í umhverfi sitt og máist ekki svo auðveldlega burt.
Leiðin liggur upp frá Fossi í Fossfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar og niður að Tungumúla á Barðaströnd. Lagt verður af stað frá bílastæðunum við Bónus kl. 7 um morguninn en gangan sjálf byrjar klukkan 10. Erfiðleikastig 2 skór en það þýðir almennt skv. skilgreiningu á heimasíðu Ferðafélags Íslands að gönguleið er 5 – 7 klst. og þá gengið í hæðóttu landslagi. Bakpoki þarf ekki að vera þungur. Engar eða auðveldar ár. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðri þjálfun. Lengd gönguleiðarinnar yfir Fossheiði er um 15 km , áætluð tímalengd er 6 – 7 klst. og hækkun er 490 metrar. Fararstjórar í ferðinni eru Magnús Valsson frá Kvígindisdal og Þórður Sveinsson frá bænum Múla á Barðaströnd.
Emil Emilsson stjórnarmaður í Ferðafélagi Ísfirðinga segir að þátttaka sé mjög góð í ferðinni og greinilegt að margir vilja nota þetta tækifæri til að ganga þessa fallegu leið undir leiðsögn heimamanna. Stjórn félagsins tók þá ákvörðun að niðurgreiða ferðina töluvert til að stuðla að aukinni hreyfingu og til þess að fólk fái aukið tækifæri til að sjá landið sitt án þess að greiða stórfé fyrir það.
Í tilkynningu frá ferðafélaginu segir að „Í lögum Ferðafélags Íslands er reyndar kveðið skýrt á um það að markmið félagsins sé að hvetja til ferðalaga um Ísland og greiða fyrir þeim. Jafnframt að vekja áhuga Íslendinga á landinu sínu, náttúru þess og sögu. Einnig að efla vitund þeirra um nauðsyn varfærni í samskiptum manns og náttúru, góða umgengni og vernd náttúrunnar. Ferðafélag Ísfirðinga er ein deild innan þess en starfar sjálfstætt. Félagið er áhugamannafélag og er tilgangur þess að stuðla að ferðalögum um Ísland, einkum á Vestfjörðum.“