Dýralæknisvandinn: ólíðandi staða

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi um þá stöðu sem uppi er á Vestfjörðum eftir að dýralæknirinn hætti störfum. Í minniblaði þórdísar Sifjar Sigurðardóttur, bæjarritara og starfandi bæjarstjóra segir að komið hafi fram í samtölum við Matvælastofnun og skrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að Mast, ráðherra og Dýralæknafélagið eru sammála því að gera þurfi breytingar á kerfinu, en ef fram heldur sem horfir munu fleiri þjónustusvæði vera í svipaðri stöðu og Vestfirðingar í haust þegar samningar við Mast um dýralæknaþjónustu losna.

Þarna er verið að vísa til þess að dýralæknarnir eru ráðnir sem verktakar hjá Mast og þeir þurfa sjálfir að finna afleysingadýralækni. Það hefur reynst nær ógerningur á Vestfjörðum og því var dýralæknirinn Sigríður Inga Sigurjónsdóttir stöðugt á vakt árum saman þar til hún sagði upp og lét af störfum.

Þá kemur einnig fram í minniblaðinu að samkvæmt upplýsingum frá Sigurborgu Daðadóttur, yfirdýralækni, hafir ráðuneytið ákveðið að skipa starfshóp til að setjast niður og finna leiðir til lausna. Helst er verið að horfa til þess hvaða breytinga þurfi að gera á reglugerð, nr. 846/2011, um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum, sem nú er skipt í 9 þjónustusvæði. Starfshópurinn hefur ekki verið skipaður, en mikill vilji er til þess að skoða allar færar leiðir til að sporna við því vandamáli sem blasir við.

Bæjarráðið bókaði að það “ telur stöðuna ólíðandi en finna verður tímabundnar leiðir og varanlegar til að þjónustan verði til staðar.“

Bæjarráð skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp sem allra fyrst til að finna leiðir til að fjölga dýralæknum í dreifðari byggðum og starfshópurinn starfi hratt og vel.

DEILA