Dokkan brugghús: gengur vel

Gunnhildur Gestdóttir, stjórnarformaður.

Gunnhildur Gestsdóttir, stjórnarformaður Dokkunnar Brugghús ehf segir að starfsemin gangi vel og í megninatriðum samkvæmt áætlun. Fyrirtækið hóf starfsemi sína 1. júní 2018 og bruggar vestfirskan bjór.

Fyrirtækið hefur aðsetur að Sindragötu 11 en þar fer öll starfsemin fram. Framkvæmdastjóri er Hákon Hermannsson. Framleiddar eru nokkrar tegundir af bjór og bera þær rammvestfirsk nöfn eins og Dokkan og Dynjandi. Þá er til einnig Drangi og Brellur sem eru ekki síður vestfirsk.

Gunnhildur segir að vel gangi að selja framleiðsluna. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur tekið bjórinn til sölu og gengur samstarfið með ágætum.

Framleiðslan fer fram í stórum bruggtönkum sem samtals taka um 11.000 lítra.

Uppistaða bjórsins er vatnið  og er notað ákaflega gott og tært lindarvatn  sem er náttúrulega síað og algerlega hreinsað í gegnum 14 milljón ára gömul hraunlög.

Nafnið er þekkt í sögu Ísafjarðar. Dokkan, eða skipakvíin, var gerð 1857 og notuð fram til 1920, þegar hún var fyllt upp og byggð bryggja út frá fyllingunni. Það var Hjálmar Jónsson frá Kambi í Árneshreppi  sem lét gera kvína. Með henni fékkst öruggt vetrarlægi fyrir hákarlaskipin.  Þetta var mikið mannvirki á þessum tíma, hún var með tvöföldum tréveggjum og á milli þeirra var fyllt með grjóti og möl. Allt að 7 skip gátu legið þarna en stærðin var um 7-800 fermetrar. Dokkan var þar sem rækjuverksmiðjam Kampi er í dag.

Dokkan brugghús er sannarlega vestfirskt fyrirtæki sem hefur á skömmum tíma náð góðri fótfestu í framleiðslunni.  Mikið aðsókn er í brugghúsið á Sindragötunni og erlendir ferðamenn af skemmtiferðaskipunum kunna vel að meta ísfirska bjórinn.

Gamla dokkan.
Bruggtankarnir.

 

DEILA