Bogfimi: feðgin á Vestfjörðum með 2 Íslandsmet

Kristján Guðni og Lilja Dís með verðaluanpeninga sína.

Kristján Guðni Sigurðsson, Flateyri, úr Skotíþróttafélagi Ísafjarðar  sló Íslandsmetið í sveigboga í aldursflokki 50+ rækilega. Metið var 466 stig en Kristján náði 534 stigum í undankeppninni sem er mikil hækkun. Dóttir hans Lilja Dís úr SF Ísafirði gerði slíkt hið sama og bætti 248 stiga metið í U18 sveigboga kvenna með skori upp á  286 stig á Íslandsmótinu. Í sveigboganum var skotið af 60 metra færi.

Lilja Dís varð svo Íslandsmeistari í sínum aldursflokki eftir útsláttarkeppni.

Þrátt fyrir Íslandsmetið vann Kristján ekki Íslandsmeistaratitilinn, en fékk þó silfur, en hann tapaði í útslætti á mót Alberti Ólafssyni. Kristján lét svo um mælt „Þetta mun ég aldrei fyrirgefa mér“ þar sem hann var talinn vænlegastur til vinnings í upphafi útsláttarkeppninnar.

Skotíþróttafélag Ísafjarðar sendi fjóra keppendur og komu allir heim með verðlaunapening. Auk þeirra feðgina Kristjáns og Lilju kepptu þau Georg Rúnar Elfarsson og Ellen Drífa Ólafsdóttir Ísafirði og fengu bæði brons.

Í samtali við Kristján Guðna kom fram að Vestfirðingunum hafi gengið vel í þessari íþróttagrein. Lilja Dís varð Íslandsmeistari innanhúss í vor, Georg Rúnar einnig og á síðasta ári varð Kristján Guðni Íslandsmeistari bæði innanhúss og utan.

DEILA