Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps ákvað á síðasta fundi sínum að ráðstafa veiðirétti sveitarfélagsins í Bjarnafjarðará með því að draga út nöfn þeirra íbúa sem fá dag með stöng.
Bjarnarfjarðará er sjóbleikjuá í Bjarnarfirði á Ströndum um 35 km akstur frá Hólmavík. Veiðisvæðið er um 7 km með 25 merktum veiðistöðum. Vatnasvæði árinnar er mjög fallegt og býður upp á fjölbreytt veiðisvæði. Bjarnarfjarðará er eftirsótt sjóbleikjuá og þar veiðast stundum laxar. Veitt er á fjórar stangir í neðri hluta árinnar sem hér er fjallað um. Veiðitímabil er frá 20. júní til 20. september.
Sveitarfélagið á 84 stangir í ánni og var samþykkt tillaga Bjarna Þórissonar með fjórum atkvæðum gegn einu að að úthluta stöngunum milli íbúa hreppsins með drætti sem skrifstofustjóri framkvæmir.
Finnur Ólafsson, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að stangirnar væru heldur færri en íbúarnir svo það myndu einhverjir íbúar ekki fá neinn dag. Hann bjóst við því að miði með nöfnum allra íbúa hreppsins yrðu sett í einn pott og síðan yrðu miðarnir dregnir út einn af öðrum.