ASÍ: Mikil hækkun vatnsgjalda á Ísafirði

Vatnsgjöld á Ísafirði hafa hækkað mikið frá 2014 til 2019 samkvæmt athugun verðlagseftirlits ASÍ, sem birt var fyrir síðustu helgi. Á sérbýli í eldri byggð er hækkunin 45,2% sem er sú þriðja mesta af 15 sveitarfélögum sem tekin voru til samanburðar. Hækkunin var heldur minni á fjölbýli eða 30,9% og þar er Ísafjörður í 5. sæti yfir hækkun á tímabilinu.

Álagningarhlutfallið á Ísafirði er 0,21% af fasteignamati sem er það næst hæsta af 11 sveitarfélögum sem leggja á skv. matinu. Fjögur sveitarfélög nota annan álagningarstofn og eru því ekki samanburðarhæf. Álagningarhlutfallið er aðeins hærra í Fjarðarbyggð. Níu af 15 sveitarfélögum lækkuðu álagningu sína á tímabilinu sem tekið er til skoðunar. Það var hins vegar óbreytt allan tímann á Ísafirði.

Lægst er álagningarhlutfallið í Kópavogi 0,07% sem er 1/3 af hlutfallinu á Ísafirði.

 

DEILA