Arctic Fish golfmótið var á laugardaginn

Þátttakendur á Arctic Fish golfmótinu í Tungudal.

Það voru 44 þátttakendur sem hófu leik í Arctic Fish mótinu í golfi á Tungudalsvelli s.l. laugardag. Það var dumbungur í honum, norðan kaldi en þurrt og völlurinn skartaði sínu fegursta. Mótið er hluti af Sjávarútvegsröðinni og því mikið um aðkomufólk meðal keppenda, enda mótaröðin orðin vel þekkt á Vestfjörðum, og þó víðar væri leitað.

Í höggleik kvenna sigraði Sólveig Pálsdóttir á 94 höggum og Anna Guðrún Sigurðar var í öðru sæti á 95 höggum og Björg Sæmundsdóttir var í þriðja sæti á 96 höggum.

Í höggleik karla sigraði Jón Hjörtur Jóhannesson á 73 höggum, Baldur Ingi Jónasson var í öðru sæti á 79 höggum og Kristinn Þórir Krisjánsson í þriðja sæti á 80 höggum eftir bráðabana við Karl Inga Vilbergsson

Sigurvegari í unglingaflokki var Jón Gunnar Kanishka Shiransson á 78 höggum og Hjálmar Helgi Jakobsson var í öðru sæti á 102 höggum.

Sigurvegari í punktakeppni í opnum flokki var Einar Gunnlaugsson með 40 punkta, annar var Páll Guðmundsson með 38 punkta og Ingólfur Ívar Hallgrímssson var í því þriðja með 37 punkta.

Boðið var til kvöldverðar í Golfskálanum þar sem verðlaun voru afhent ásamt nálgunarverðlaunum fyrir 6, 7, 15 og 16 holu.

Arctic Fish er laxeldisfyrirtæki sem er staðsett á Vestfjörðum með höfuðstöðvar á Ísafirði. Fyrirtækið er byrjað að slátra fyrstu kynslóð laxa úr kvíum sem staðsettar eru í Dýrafirði. Fyrirtækið hefur byggt upp seiðaeldisstöð í Norðurbotni í Tálknafirði sem er með þeim stærstu og fullkomnustu í heimi. Seiðaeldið er einstakt í sinni röð hérlendis með fullkomið endurnýtinga-kerfi á vatni og notar eingöngu vistvæna orku við framleiðsluna. Framleiðslugetan í seiðaeldisstöðinni eru þrjár milljónir seiða. Fyrirtækið er með ASC vottun um að framleiðslan er eins umhverfisvæn og mögulegt er.

DEILA