Að kunna að skrifa reikninga list er góð!

Mikil kúnst er það í okkar þjóðfélagi að kunna að skrifa reikninga. Svo virðist nefnilega að þeir sem kunna þá list hafi algjört sjálfdæmi stundum. Spesíalistar og spekingar, einkum álitsgjafar, sem vinna „hjá því opinbera“ hafa þar sérstöðu. Stjórnsýslan alveg ga-ga og fátt um bremsur. Þannig virkar það allavega á sauðsvartan almúgann. Svo fer einhver að röfla eða spyrjast fyrir. Þá kemur oft ýmislegt upp úr dúrnum.

Sjáið þið til dæmis vini okkar lögfræðingana. Þó þeir séu alls góðs maklegir og stórkostlegir Matlockar sumir, virðast þeir margir ekki snúa sér við fyrir minna en milljón. Hvað þá heldur þegar þeir taka að sér einhver mál sem bragð er að. Til dæmis þegar þeir eru settir í það djobb að vera skiptastjórar. Þá er róinn lífróður dag og nótt, eða þannig. Stundum átta til tíu ár. Sjálftaka í góðum búum. Tugir milljóna eða kannski hundruð í skut. Meðferðin á dánarbúi konu nokkurrar var í fréttum um daginn. Hún sýnir svart á hvítu að stjórnsýslan okkar er stórkostleg. Menn gera það sem þeim sýnist og komast upp með það. En strákurinn sem stal kók og Prince polo í sjoppunni er settur undir lás og slá!
Svona hefur dælan gengið í áratugi án þess stjórnmálaelítan hreyfi litla fingur. Það þekkja allir kennitölubrandarann, sem er sárgrætilegur. En Elítan er svo upptekin af að tæja hrosshárið sitt að hún má ekkert vera að því að sinna slíku.

„Viskum ekki gefa um það. Við skulum vera að tátla hrosshárið okkar,“ sagði sá gamli.

Auðun vestfirski

DEILA