40 ár frá afhjúpun minnisvarða að Kollabúðum

Stjórn Fjórðungsambands Vestfirðinga á þessum tíma. F.v.: Gunnar Pétursson, rafvirki, Patreksfirði, Guðmundur H. Ingólfsson, bæjargjaldkeri, Ísafirði, Jóhann T. Bjarnason, Framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, Ísafirði, Ólafur Kristjánsson, skólastjóri, Bolungarvík, Valdimar Gíslason, bifreiðastjóri, Bolungarvík og Karl Loftsson, oddviti, Hólmavík.

Í dag eru 40 ár frá afhjúpun minnisvarðans um Kollabúðafundina á Kollabúðaeyrum í Þorskafirði þann 29. júlí 1979.
-Ísfirðingur- blað Framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi greindi svo frá  þann 10. ágúst 1979.

Fjórðungssamband Vestfirðinga minntist þess sunnudaginn 29. júlí s.l. með afhjúpun minnisvarða á Kollabúðaeyrum við botn Þorskafjarðar, að 130 ár eru liðin frá því að komið var saman á þeim stað til fyrsta fundar af 20, sem haldnir voru á árunum 1849 til 1868, og kallaðir voru Kollabúðafundir. Tilgangur þessara funda var að samræma hugmyndir, óskir og vilja dreifðra manna, stilla saman krafta þeirra til átaka og framkvæmda öllum til góðs, en það er eitt af megin verkefnum Fjórðungssambands Vestfirðinga í dag, en það var stofnað fyrir 30 árum, eða réttum 100 árum síðar en fyrsti Kollabúðafundurinn var haldinn.

Ákveðið var á Fjórðungsþingi Vestfirðinga 1977 að láta gera minnisvarða þann, sem nú var afhjúpaður. Á stjórnarfundi Fjórðungssambandsins var þrem mönnum falið að hafa framkvæmdina á hendi, þeim Ólafi Þ. Þórðarsyni, Halldóri Kristjánssyni og Ólafi E. Ólafssyni. Skilaði nefndin störfum við afhjúpun minnismerkisins. Þar flutti Ólafur Þ. Þórðarson ávarp, Ólafur E. Ólafsson afhjúpaði minnisvarðann og Halldór Kristjánsson flutti hátíðarræðu. Ólafur Kristjánsson, formaður stjórnar Fjórðungssambandsins þakkaði listamanninum, nefndarmönnum og öðrum, sem að verkinu höfðu unnið, og bauð öllum viðstöddum til kaffidrykkju í Bjarkalundi í boði Fjórðungssambandsins. Fjölmenni var við athöfnina, sem var í senn látlaus og virðuleg.

Framkvæmdanefndin um minnisvarða Kollabúðafundanna og listamaðurinn. F.v.: Steinþór Sigurðsson, listamaður, Ólafur Þ. Þórðarson, Suðureyri, Ólafur E. Ólafsson, Króksfjarðarnesi og Halldór Kristjánsson, Kirkjubóli Bjarnardal í Önundarfirði.

 

Steinþór Sigurðsson, listamaður, er höfundur minnisvarðans, sem er ferstrend, steinsteypt súla á steinsteyptri undirstöðu. Á hverja hlið súlunnar er festur skjöldur og sverð úr málmsteypu.

Það er vitað um aðdraganda Kollabúðafundanna, að til þeirra var stofnað með vitund og vilja Jóns Sigurðssonar, forseta, en hann kom til fundar við kjósendur sína fyrir þing 1845 og 1847, en hafði þá dvalið á annan áratug í öðru landi, en skrifast á við nokkra áhrifamenn á Vestfjörðum um fundahald.

Það voru 80 menn, sem sóttu fyrsta Kollabúðafundinn 18. og 19. júní 1849. Þeir voru komnir úr öllum sýslum Vestfjarða, sumir tvær dagleiðir. Á fundinum voru gerðar 7 samþykktir og þar voru kosnir tveir menn til að fara á sameiginlegan fund Dalamanna, Snæfellinga og Mýramanna í Þórsnesi til að kynna þar samþykktir Kollabúðafundarins. Á fundinum í Þórsnesi voru samþykktar allar 7 ályktanir Kollabúðafundarins og tvær að auki. Á fyrsta Kollabúðafundinum voru einnig valdir tveir menn til að mæta fyrir hönd Vestfirðinga á Þingvallafundi um sumarið, sem taka skildi við, meta og samræma það, sem héraðsfundir höfðu ályktað.

Á Kollabúðafundum voru einkum settar fram kröfur um aukið frjálsræði til handa landsmönnum úr hendi Danakonungs og íhlutun um landsstjórn. Þá var og um það fjallað og reynt að gera sér ljóst og ákveða hvernig nota skyldi frelsi og sjálfstjórn. Meðal þeirra mála sem rædd voru, á fundum á Kollabúðum, auk stjórnarskrármáls, voru landhelgismál – mótmæli gegn því að Þingeyri yrði frönsk verstöð, þjóðræknismál – að embættismenn notuðu íslenzku í bréfum og bókum embætta sinna, verslunarmál – að leyfar einokunarinnar væru afnumdar svo sem varð 1855, atvinnumál ýmiskonar og skólamál.

Til fyrsta Kollabúðafundarins má t.d. rekja sögu sjómannafræðslunnar á Íslandi, en sjómannaskóli tók til starfa á Ísafirði haustið 1852 undir stjórn Torfa Halldórssonar. Kollabúðafundirnir voru í senn árangur af og ýttu mjög undir félagslega vakningu meðal Vestfirðinga og þjóðarinnar í heild.

-Ísfirðingur- blað Framsóknarmanna í Vestfjarðakjördæmi þann 10. ágúst 1979.
Ritstjórar: Halldír Kristjánsson og Jón Á. Jóhansson, ábyrgðarmaður. Afgreiðslumaður, Guðmundur Sveinsson.

Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka sett fram til birtingar nú 29. júlí 2019.

DEILA