West Seafood: taprekstur og neikvætt eigið fé

Tap varð af rekstri West Seafood sem reyndar heitir Fiskvinnslu Flateyrar ehf í ársreikningi  rekstrarárið 1.9. 2016- 31.8. 2017, sem er það síðasta sem opinber gögn eru til um.

Tapið varð um 63 milljónir króna sem er um 20% af tekjum fyrirtækisins. Eignir eru bókfærðar 168 milljónir króna og er eigið fé orðið neikvætt um 28 milljónir eftir tímabilið.

Athuga ber að tölurnar eru nærri tveggja ára gamlar og svo virðist að reksturinn frá 1.9. 2017 hafi ekki bætt efnahag fyrirtækisins sé miðað við stöðu fyrirtækisins nú, en afar lítill rekstur er.

Samkvæmt ofangreindum ársreikningi sem dagsettur er 9. október 2018 er Steinþór Bjarni Kristjánsson stærsti hluthafinn og á hann þá 33,56% hlutafjár. Næsti stærsti hluthafinn er 4-3 Trading ehf með 22,22%, E3 á 12,44% og Bræðraborg ehf á 11,11%. Aðrir hæuthafar eiga minna en 10% hlutafjár.

Nýtt fé og nýtt fólk

Karl Brynjólfsson, einn hluthafinn og fyrrverandi framkvæmdastjóri segir að verið sé að fá nýtt fólk að fyrirtækinu sem hluthafar og fulltrúi þess muni setjast í stjórn fyrirtækisins.

Karl segir að „mjög mörg fyrirtæki í sjávarútvegi eiga undir högg að sækja og við höfum ekkert farið varhluta af því en erum þó að kappkosta að fullvinna fisk á Vestfjörðum með þær aflaheimildir sem við erum með, kaupa fisk á fiskmarkaða vestfjarða og halda úti vinnslu og störfum.  Við erum bara lítil Fiskvinnsla að gera sitt besta við halda lífi í plássi sem á undir högg að sækja sem flokkast undir brothætta byggð.“

Karl segir að ætlunin sé „að loka í júlí til að laga húsið út af MSC vottun okkar en sú viðgerð er mjög kostnaðarsöm.  Að vera MSC vottaður hjálpaði mikið til að fá þá aðila til okkar að fiskvinnslunni þannig að sú fjárfesting borgaði sig.“

Hann segir að 3 menn komi vestur fyrir þessa helgi „til að undirbúa allt saman, fara í gegnum húsið og fara í gegnum það sem þarf að fara laga í húsinu enda er núna stefnt að því að það verði unnið í júlí og fram að nýju fiskveiðiári.“

 

DEILA