West Seafood: skaðabótamál á hendur ÍS 47 ehf

Karl Brynjólfsson í höfuðstöðvum West Seafood ehf. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Karl Brynjólfsson, einn eigenda West Seafood ehf á Flateyri segir að lögmaður fyrirtækisins sé að vinna að skaðabótamáli á hendur ÍS 47 ehf vegna vanefnda á samningi um að veiða 80 tonn af þorski og að útvega 150 tonn af regnbogasilungi sem West Seafood myndi slátra fyrir  ÍS 47 ehf.

Karl segir að vanefndirnar hafi sett stórt strik í reikninginn  og sérstaklega hvað varðar laust fé. „það sér það hver heilvita maður að svona lagað hefur mikil áhrf á svona lítinn rekstur að fá ekki heil 80 tonn af Þorski og 150tonn af slægingu á Regnboga og hefur skaðað okkur mikið“ segir Karl Brynjólfsson í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Gísli Jón Kristjánsson, útgerðarmaður og eigandi ÍS 47 ehf  segir að 80 tonnin séu hluti af Byggðastofnunarkvótanum sem hafi verið færð á bát hans. Samkvæmt samningnum við Byggðastofnun eigi West Seafood ehf að leggja til önnur 80 tonn á móti. Það hafi ekki verið gert og eru 80 tonnin á bát ÍS 47 ehf ennþá óveidd og ennþá skráð á bátinn. Gísli Jón segist hafa viljað fá tryggingar fyrir því að West Seafood ehf myndi greiða fyrir veiddan fisk enda var fyrirtækið í verulegri skuld við ÍS 47 ehf, en þær tryggingar hafi ekki fengist.

Hvað varðar 150 tonnin af regnbogasilungnum, þá hafi slátrunin á þeim fiski ekki verið hluti af samningnum heldur hafi það verið áform um viðskipti, sem ekki hafi gengið eftir. Regnbogasilungurinn er enn spriklandi í kvíunum.

ekki kynnst annarei eins vitleysu

Gísli Jón minnir á að West Seafood ehf hafi skuldað ÍS 47 ehf verulegar fjárhæðir og það hafi þurft að fara fram á gjaldþrot West Seafood til þess að fá skuldina greidda. „En ég á ennþá inni kvóta um 20 tonn á móti lönduðum fiski sem handsalað var við Steinþór Kristjánsson.“

Gísli Jón segir um ummæli Karls Brynjólfssonar að stjórn West Seafood ehf hafi notað viðskiptavini fyrirtækisins sem banka til að fjármagna fyrirtækið og um væntanlega skaðabótakröfu segir Gísli Jón „annað eins bull og vitleysu hef ég aldrei kynnst á 30 ára útgerðarsögu minni“ og er hvergi smeykur við væntanlega skaðabótakröfu.

DEILA