Vill skipakirkjugarð í Djúpinu

Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ leggur til að stofnaður verði  vinnuhópur í samstarfi við Súðavíkurhrepp sem hafi það hlutverk að gera staðarvals- og fýsileikakönnun á að koma upp skipakirkjugarði í einhverjum innfjarða Ísafjarðardjúps.

Að baki tillögunni liggja tveir megin þættir segir í tillgöu Sigurðar, varðveisla menningarverðmæta annnarsvegar og nýsköpun í atvinnulífi hins vegar.

Greinargerð Sigurðar með tillögunni er svohljóðandi:

„Sportköfun er afar vinsælt sport á heimsvísu, en til að staðir njóti vinsælda til köfunar þurfa þeir að búa yfir einhverju sérstöku aðdráttarafli. Skipsflök eru slíkt aðdráttarafl og víða um heim eru slíkir staðir afar fjölsóttir og eru þannig lóð á vogarskálar í atvinnulífi svæðanna. Með vel skipulögðum skipakirkjugarði, nákvæmri umhverfisvöktun og ströngum reglum, má byggja upp áningarstað sem dregur fólk víða að og býr til nýja tegund afþreyingar fyrir ferðafólk sem heimamenn.

Menningarverðmæti í tréskipum íslendinga liggja undir skemmdum og á síðustu áratugum hefur miklum fjölda af tréskipum verið fargað á eldi eða niðurbroti. Fjármagn til varðveislu þessara menningarminja er af mjög skornum skammti og því miður fátt sem bendir til þess að breyting verði á því í bráð. Timburskip geymast illa á landi, eins og Skagamenn hafa rækilega sannað, en hinsvegar má finna dæmi um að sokkin timburskip varðveitist ótrúlega vel. Með það í huga að varðveita skip með möguleika á að ná í þau síðar og endurgera, má á næstu árum forða fjölda skipa frá eyðingu og varðveita með þeim hætti mikilvæga þætti í atvinnu- og menningarsögu landsins.“

Bæjarráðið óskar eftir því að tillagan verði rædd í svitarstjórn Súðavíkurhrepps.

DEILA