Nýstofnuð deild innan Vestra, Vestri hjólreiðar, vill fara í uppbyggingu á hjólastígum í grennd við Ísafjörð. Hefur deildin lagt fram hugmyndir þess efnis fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar. Nefndin ræddi umsókn Vestra hjólreiða á síðasta fundi sínum og heimilaði notkun svæðis í eigu Ísafjarðarbæjar, undir fjallahjólreiðar.
Nefndin bendir á að viðhald stíga og búnaðar skuli vera á ábyrgð Vestra Hjólreiða. Þegar notkun svæðis er hætt skal svæði skilað í viðunandi ástandi og búnaður fjarlægður.
Leyfi fékkst frá Ísafjarðarbæ árið 2017 fyrir fjallahjólaleið frá Botnsheiði og niður Hnífafjall. Þessi leið er þegar tilbúin og hefur vakið mjög mikla athygli um land allt og dregið til sín marga fjallahjólara. Má þar m.a. nefna fjallahjólamót síðasta sumar í þessari leið þar sem voru um 100 þátttakendur. Í sumar verður samskonar mót haldið með um 80 þátttakendum.
Hjólreiðafólkið segir í umsókn sinni að Skíðaskálanna í Seljalandsdal, Tungudal og Fossavatnshúsin væri hægt að nota á sumrin fyrir fjallahjólafólk og annað útivistarfólk sem nýtir stígana.
Síðasta haust var byrjað að kanna möguleika á þremur nýjum leiðum: Skíðheimar, Tungudalur og Bunan og er það vili umsækjenda að nýta sumarið til að klára þessar leiðir. Einnig kom hugmynd að leið gegnum skógræktina í Múlahlíð (Múlinn) og hefur félagið fengið samþyki frá skógræktinni að leggja þá leið.
Einstökum leiðum er lýst í umsókninni frá Vestra, hjólreiðum og eru hér nefndar þrjár þeirra:
Botnsheiði og Hnífar
Leiðin byrjar á gamla veginum um Botnsheiði og liggur aflíðandi niður heiðina að Tungudal.
Þegar komið er að litlum tjörnum er hjólað upp að vörðu á litlu felli. Þaðan liggur leiðin eftir
Hnífafjall og endar í skógræktinni á hálsinum milli Tungudals og Dagverðadals. Neðst í brautinni eru nokkrar hjólaþrautir, stökkpallar, beygjur og jafnvægisbrýr. Leiðin er tilbúin þarf aðeins viðhalds fyrst á vorin.
Tungan
Í stað þess hjóla niður Hnífana sem er nokkuð krefjandi leið og ekki fyrir byrjendur er hægt að fara Tunguna niður í Tungudal. Þessi leið er nokkuð auðveld og kemur inná gamla þjóðleið sem lá úr Tungudal og yfir í Súgandafjörð. Leiðin er tilbúin fyrir utan síðustu 100 metrana en hugmyndin er að fara yfir Tunguá og enda við Skíðaskálann í Tungudal.
Bunan
Þessi leið byrjar á toppi Sandfells. Hægt er að komast í upphaf leiðarinnar með því að fylgja
vegslóðanum undir Sandfellslyftu alveg upp að efsta lyftumastrinu. Þaðan þarf að hjóla um 200 m upp á topp fjallsins þar sem leiðin byrjar. Hjólað er til norðurs niður að Buná og farið strax yfir ánna. Um leið og komið er yfir ánna er sveigt til hægri og hjólað meðfram Buná alveg niður að Skíðaskálanum í Seljalandsdal þar sem leiðin endar. Svæðið hefur verið skoðað talsvert og komin góð hugmynd að því hvar best væri að hafa leiðina með tilliti til jarðvegs og snjóalaga.
Það er hryggur sem fylgir ánni að norðanverðu sem kemur snemma undan snjó og er þurr
gróður lítill. Það eina sem þarf að gera er að merkja leiðina vel með stikum þar sem undirlagið er lítið grýtt. Þessi leið yrði ekki tæknilega erfið og myndi henta vel sem létt en hröð enduro leið.