Við bræðurnir og Gaui: Hrós dagsins fá rútubílstjórar sem aka Hrafnseyrarheiði

Ein af þessum stóru frá lipurmennunum hjá Fisherman á Suðureyri og farþegafjöld. Ljósm. bb.is.

Þessa dagana, þegar skemmtiferðaskipin eru að verða daglegir gestir í Ísafjarðarhöfn, fer maður að sjá stærðarinnar langferðabifreiðar á ferðinni yfir Hrafnseyrarheiði. Stundum margar í einu og aðrar smærri. Sannleikurinn er sá, að það er ekki heiglum hent að vera bifreiðarstjóri á þeirri leið með kannski 50, 60 eða 70 manns í farþegarýminu. Þannig að það er vissara að vera vakandi og á verði þegar farið er yfir blindhæðir og í blindbeygjur á þeim góða fjallvegi. Þar má ekkert útaf bera.

Um daginn voru 10 rútur á ferð í einum rikk. Þá sýndum við þessum mönnum góða tillitssemi. Eins og maður á náttúrlega alltaf að gera í umferðinni. Þá verða færri slys á svona vegum. Gáfum þeim veginn alfarið. Allir veifuðu þeir til okkar að fyrra bragði í þakklætisskyni. Maður hefði getað haldið að það væru útlendingar undir stýri!  Þessir ágætu menn bera mikla ábyrgð í sínu starfi. Við bræðurnir og Gaui veitum þeim hrós dagsins.

(Af Þingeyrarvefnum)

DEILA