VG á villigötum

Sú var tíðin að flokkum sem mætti kalla forvera Vinstri grænna í íslenskri pólitík þótti sæma að standa með þeim sem minnst máttu sín í lífsbaráttunni. Ekki bara öryrkjum og öldruðum heldur einnig fólkinu sem ekkert hafði að selja nema vinnu sína. Verkalýðshreyfingin átti sína fulltrúa á Alþingi sem börðust fyrir bættum kjörum launafólks á hverjum tíma og voru þeir einatt úr röðum Dagsbrúnar sem ævinlega dró vagninn í kjarabaráttunni umfram önnur verkalýðsfélög. Forystumenn járniðnaðarmanna og trésmiða voru líka í fylkingarbrjósti þegar sló í brýnu með verkalýð og vinnuveitendum. Þegar Alþýðubandalagið sundraðist upp úr 1995 risu upp tveir flokkar, Samfylkingin og Vinstri græn. All mikið vatn er til sjávar runnið frá því þau vatnaskil urðu. Helsta ágreiningsmál þessara flokka snertir aðildina að Efnahagsbandalaginu, að minnsta kosti í orði.

Eftir síðustu alþingiskosningar gerðust þau tíðindi að Vinstri græn gengu í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn fékk að vera til fóta. Slíkt hafði ekki gerst síðan á lýðveldisárinu 1944 og var stjórn um ákveðnar aðgerðir nýríkra Íslendinga. Fékk heitið Nýsköpunarstjórnin og var undir forsæti Ólafs Thors. Sósíalistaflokkurinn, sameiningarflokkur alþýðu, átti tvo ráðherra í stjórninni, atvinnumálaráðherrann Áka Jakobsson og menntamálaráðherrann Brynjólf Bjarnason. Tugir togara og báta voru keyptir til landsins og samið var um almannatryggingar eins og þær sem best þekktust í Evrópu. Skarað skyldi í glóðir atvinnulífsins og fiskiskipaflotinn endurreistur með nýjum og fullkomnum skipum. Alþýðuflokkurinn veitti þessari stjórn brautargengi og fór meðal annars með dómsmál og varð Finnu Jónsson frá Ísafirði dómsmálaráðherra. Nýsköpunarstjórnin sprakk á Keflavíkursamningnum þegar kom fram á árið 1946 þegar tvíhliða samningur var gerður um afnot Kana af Keflavíkurflugvelli með borgaralegum starfsmönnum. Áður höfðu Bandaríkjamenn farið fram á land undir herstöðvar til 99 ára þar á meðal í Skerjafirði undir flugbáta. Sósíalistar sættu sig ekki við Keflavíkursamninginn og því fór sem fór. Rétt að geta þess hér að Alþýðubandalagið átti í samstarfi við Gunnar Thoroddsen og fleiri sjálfstæðismenn, sem klufu sig frá meginflokknum um myndun ríkisstjórnar, árið 1980.

Það urðu örlög Alþýðuflokksins að mynda Viðreisnarstjórnina með Sjálfstæðisflokknum árið 1959 og sat sú stjórn í tólf ár. Nú hafa Vinstri græn setið í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um hríð. Svo virðist sem stjórn þessi hafi verið mynduð um óbreytt ástand, status quo. Flokkur sem taldi sig yst til vinstri semur við kapítalistana um óbreytt ástand. Kjör öryrkja og aldraðra skyldu vera áfram undir hungurmörkum. Minnisstæð er ræða Katrínar Jakobsdóttur skömmu eftir að stjórnin var mynduð þegar hún útlistaði fyrir þjóðinni og þar á meðal öryrkjum og gamalmennum hversu mikillar prósentuhækkunar þeir fyrr nefndu hefðu notið. Sölvi Helgason reiknaði barn í kvenmann. Þetta voru álíka reikningskústir hjá Katrínu og náttúrlega Bjarna Benediktssyni. En enginn gerir kröfu til Sjálfstæðisflokksins um bætt kjör aldraðra og öryrkja og hvað þá til Framsóknarflokksins sem er einungis kjötkatlaflokkur sem fyrr. Aldrei heyrist múkk frá Vinstri grænum þegar málefni öryrkja eða gamalmenna ber á góma. Maður spyr sig um kompásinn hjá VG. Hvers lags flokkur er þetta og hvert er bakland hans? Eins og forystukonur hans og menn séu alveg ligeglad um kjör þeirra sem minnst mega sín. Er þetta orðinn einhver elítuflokkur menntamanna og háskólamanna sem gera það nokkuð gott. Erum við gamalmennin og öryrkjarnir einhver afgangsstærð til vandræða og skiljum ekki gangverk tíðarinnar?

Ýmsir dyggir stuðningsmenn hafa yfirgefið fleytuna og enn grisjast úr flokknum samkvæmt skoðanakönnunum. Menn spyrja um tilganginn með þessari stjórnaraðild. Nafngiftin ráðherrasósíalismi hefu aftur vaknað til lífsins og var kannski ekki réttlátt á þeirri tíð.

Þegar kemur að næstu kosningum verður spurt; fyrir hvað stendur stjórnmálaflokkurinn Vinstri græn? Ætlar hann að verða áfram hægfara fylgihnöttur Engeyjarættarinnar? Ætlar flokkurinn að halda áfram að hlífa stórfyrirtækjunum með lágum sköttum og litlu veiðigjaldi? Er öryrkjum og öldruðum ætlað áfram hlutverk beiningarmanna í íslensku samfélagi? Og verða kannski fleiri Bakkaævintýri á döfinni eins og á Húsavík ef það þóknast einhverjum þingmönnum í héraði svo aðeins sé minnst á græna litinn í nafngift flokksins.

Fremur er ótrúlegt að fjölskyldan á Bakkavegi 11 í Hnífsdal flykkist á kjörstað til að exa við VG nema flokkurinn kúvendi og hætti stuðningi við erkiíhaldið í landinu og geri það fyrr en síðar. VG er á algjörum villigötum hvernig sem á það er litið.

Finnbogi Hermannsson

DEILA