Útskriftir í Vesturbyggð

Á mynd frá vinstri eru: Þorkell Mar, Jarþrúður Ragna og Salvar Þór Jóhannsbörn.

Það voraði snemma í ár og veðrið hefur leikið við okkur hér á sunnanverðum Vestfjörðum. Vorverkin hafa unnist ljúflega í blíðunni og léttara yfir mannfólkinu og allt farið að grænka um miðjan maí.

Á Patreksfirði er rekið útíbú FSN eða Fjölbrautaskóla Snæfellinga og þaðan útskrifuðust stúdentar um áramótin og aftur í vor. Tæknin er notuð við kennsluna og öll fög kennd í fjarkennslu svo unga fólkið fær strax þjálfun í að nýta tæknina við námið sem nýtist þeim vel í áframhaldandi námi og starfi.

Á Barðaströndinni er gjöfult landbúnaðarhérað en þar sem börnum hefur fækkað í sveitinni var ákveðið að hætta kennslu í Grunnskóla Vesturbyggðar í Birkimelsskóla fyrir þremur árum síðan. Síðasta árið útskrifuðust þríburarnir frá Brjánslæk, Salvar Þór, Jarþrúður Ragna og Þorkell Mar en þau voru þann 31. maí síðastliðinn í hópi 24. útskriftarnema í Menntaskóla Borgarfjarðar öll af náttúrufræðibraut.

Í sumar ætla Salvar og Þorkell að vinna við vegaklæðningar hjá Borgarverki í Borgarnesi, en Jarþrúður ætlar að sjá um kaffihúsið í Gamla bænum á Brjánslæk í sumar og fara svo í búfræðinám á Hvanneyri í haust. Spennandi tímar framundan í landbúnaðinum á sunnanverðum Vestfjörðum en á Brjánslæk hefur einnig verið sett á laggirnar lítil kjötvinnsla til framleiðslu á fullunnum afurðum úr héraði.

Í dag eru útskriftarnemarnir á Krít, með skólafélögum og fleiri útskriftarnemendum frá öðrum framhaldsskólum þar á meðal FSN.

DEILA