Vatnsborun : árangur lofar góðu

Eftir um 20 metra borun var strax farið að koma vatn upp úr holunni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fyrirtækið Vatnsborun hóf í gær að bora eftir köldu vatni í Bolungavík. Boraðar voru tvær tilraunaholur og var búið að bora þá fyrri í gærkvöldi. Sú hola ervið neðra vatnsbol Bolvíkinga fram í Tungudal. Boruð var grönn 51 metra djúp hola og náðist strax eftir 20 metra í sjálfrennandi vatn. Hámarksrennsli í svo grannri holu eru 10 lítar/sek af sjálfrennandi vatni, sem myndi duga fyrir tæplega þriðjungi af vatnsnotkun kaupstaðarins. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri var ánægður með árangurinn og sagði hann lofa góðu. „Ef holan gefur eftir 1 – 2 mánaða reynslutíma þetta vatnsmagn eru forsendur til þess að bora víðari holu og sú hola gæti annað vatnsþörfinni.“

Jón Páll hafði fengið sér teyg af vatninu og sagði það kristaltært og að honum hefði ekki orðið meint af.

Vatnsglasið sem bæjarstjórinn drakk úr.
DEILA