Tunnulestin: brot á umferðarlögum

Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá embætti Lögreglunnar á Vestfjörðum segir að það hafi verið brot á 6. grein umferðarlaga að draga tunnulestina með vélknúnu ökutæki. Samkvæmt 62. grein sömu laga má tengja einn eftirvagn við bifreið eða torfærutæki. Vísar Hlynur til þess að vátryggingar þurfi að ná til að bæta tjón sem gæti orðið.

„Ég get staðfest að við skiptum okkur af sl. laugardag þegar lögreglumenn í eftirliti urðu þess varir að verið var að draga börn sem sátu í tunnum á ákveðnu svæði í Bolungarvík.  Dráttartækið var vélknúið ökutæki.  Ástæða afskiptanna var að þessi athöfn samrýmdist ekki umferðarlögum né heldur reglugerð um gerð og búnað ökutækja.  Okkur þykir miður að hafa þurft að stöðva þessa athöfn, sem virðist hafa vakið lukku hjá börnunum sem þarna voru.  Það hefði hins vegar verið beinlínis rangt ef lögreglan hefði ekki gert það. Lögreglan hefði þá ekki verið að rækja skyldur sínar.  Ég dreg það í efa að tryggingafélag hefði verið tilbúið til að greiða bætur ef slys eða annars konar óhapp hefði orðið við þessa athöfn, þar sem hún samrýmdist ekki lög eins og áður sagði.“

DEILA