Tímamót á Vestfjörðum

Útlitið er bjart á Vestfjörðum. Samkvæmt nýlegri könnun meðal fyrirtækja á landsbyggðinni eru Vestfirðir í þriðja sæti þegar landshlutum var raðað eftir styrkleikum og veiklekum. Uppbygging fiskeldis hefur orðið til þess að styrkja bæði atvinnu og mannlíf á Vestfjörðum. Á sama tíma er hlutfall menningar og lista í tekjum fyrirtækja mun hærra en annars staðar.

Fyrirtæki á Vestfjörðum eru bjartsýnni á framtíðina en víða og þar vantar faglært fólk víða í þjónustufyrirtækjum. Þá bárust fréttir af því að nýsköpunarfyrirtækið Keresic hefði lokið fjármögnun upp á 2 milljarða króna. Fleiri öflug nýsköpunarfyrirtæki eru í vexti, Skaginn 3x á Ísafirði og Dropi í Bolungarvík. Nýlega var slegið í gegn í Dýrafjarðargöngunum, á undan áætlun og undir kostnaðaráætlun og með nýjum veg í gegnum Gufudalssveit og Dynjandisheiði verður bylting í samgöngum á svæðinu.

Uppbygging í ferðaþjónustu hefur verið hægari á Vestfjörðum heldur en víða annarsstaðar. Því þolir hún betur þá tímabundnu niðursveiflu í greininni sem nú er. Greinin á mikla vaxtamöguleika þar sem ferðamönnum á Vestfjörðum hefur fjölgað mun minna en annars staðar á landinu. Stórfengleg náttúra og uppbygging atvinnuvega í sátt við náttúru mun leiða til þess að þessi atvinnugrein á sannarlega framtíðina fyrir sér á Vestfjörðum

Ný löggöf um fiskeldi er nýsamþykkt á Alþingi sem setur greininni ramma sem hún getur byggt sig upp til framtíðar þar sem áhersla er lögð á umhverfisvænt eldi þar sem tekið er tillit til mótvægisaðgerða í vinnu við gerð áhættumats vegna erfðablöndunar. Fiskeldið hefur blásið nýju lífi í atvinnulíf Vestfjarða sem hafa þurft að glíma við viðvarandi fólksfækkun og tekjusamdrátt allt of lengi. Það er öllum ljóst að greinin þarfnast stöðugleika til að hún geti byggst upp á sjálfbæran hátt. Fljótlega mun fiskeldið skila sem nemur 2-3 loðnuvertíðum í þjóðarbúið.

Á vetrinum sem leið voru samþykkt lög um veiðigjöld sem festu í sessi mun réttlátara kerfi veiðigjalda, afslættir til lítilla og meðalstórra útgerða voru stórauknir og byrðunum dreift á sanngjarnari hátt. Þá voru í vor lögfestar breytingar á strandveiðum, aflaheimildir þar auknar um 1000 tonn og því tryggt að þær góðu breytingar sem náðist að gera á kerfinu síðasta vor verði festar í sessi.

Nýlega komu út lýðheilsuvísar hjá Landslæknisembættinu. Þar kom fram að streita fullorðinna er minnst á Vestfjörðum, ölvunardrykkja minni og svefnvenjur betri en víða annarsstaðar. Þó bíða fleiri Vestfirðingar eftir hjúkrunarrýmum en á landinu sem heild. Því er ákaflega mikilvægt að fyrir liggur stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Heilbrigðisráðherra hefur boðað og fjármagnað í fjármálaáætlun byggingu 790 rýma á næstu árum, bæði með endurbótum á eldri rýmum og nýjum. Þá hafa framlög til heilsugæslu á landbyggðinni aukist verulega auk bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu.

Þingmenn VG verða á opnum fundi á Ísafirði laugardaginn 22 júní á Hótel Ísafirði til þess að ræða þessi mál og önnur sem vestfirðingum eru hugleikin. Hvetjum við fólk að mæta og ræða málin.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,

formaður atvinnuveganefndar Alþingis.

DEILA