Reykhólahreppur hefur auglýst formlega aðalskipuagsbreytingu vegna Vestfjarðavegar (60).
Um er að ræða tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006-2018, vegna legu Vestfjarðavegar frá Bjarkarlundi að Skálanesi.
Breytingin snýr að því að gerðar eru breytingar á veglínu Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Skálanesi við Þorskafjörð. Um er að ræða 17,1 km langa vegagerð. Nýja veglínan fylgir fyrri línu í megindráttum en víða á leiðinni eru nokkur frávik. Þá felur breytingin í sér að nýjar námur, vegna vegagerðar, eru færðar inn á skipulag og fullfrágengnar námur sem hætt er að nota eru felldar út.
Þau sem telja sig eiga hagsmuni að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir til sunnudagsins 25. ágúst 2019 segir í auglýsingunni.
Í ýtarlegri greinargerð, sem fylgir tillögunni segir að markmið breytingarinnar sé að auka umferðaröryggi, auka greiðfærni og stytta leiðir á svæðinu með öruggari og burðarmeiri vegi. Þá segir:
„Niðurstaða sveitarfélagsins, eftir ítarlega skoðun, er að Vestfjarðavegur liggi skv. leið Þ-H, á milli Bjarkalundar og Skálaness. Þar vegur þungt að nauðsyn þess að ráðast strax í vegabætur í sveitarfélaginu og fyrir Vestfirði alla, og að ekki hafi fengist vilyrði frá stjórnvöldum fyrir því að fá fjármuni í aðra kosti, sem hafi umfangsminni umhverfisáhrif í för með sér.“
Lýst er nákvæmlega athugun á ýmsum valkostum og niðurstaðan hafi orðið þessi:
„Eftir þessa umfangsmiklu skoðun á valkostum, leggur Reykhólahreppur til leið Þ-H og að
hún verði auglýst skv. skipulagslögum nr. 123/2010.“
Mikill kostnaðarmunur
Í rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir tillögu sinni segir að það sé verulegur munur á kostnaði við helstu framkvæmdakosti, „sem er slíkur að hann er líklegur til að hafa afgerandi áhrif á tímasetningar samgöngubóta.“
Kostnaðaráætlun fyrir leið Þ-H er 7,3 milljarðar kr., leið D2 (jarðgöng í gegnum Hjallaháls) er 13,3 milljarðar kr. og leið A3 (þverun Þorskafjarðar utarlega) er 11,2 milljarðar kr., skv. mati Vegagerðarinnar (2018).