Sveitahótelið Holt Inn eins árs í dag

Þau eru fjögur sem byrjuðu þetta ævintýri fyrir um einu og hálfu ári síðan. Hjónin í Tröð, Helga Dóra Kristjánsdóttir og Ásvaldur Magnússon, ásamt syni þeirra, Kristjáni Óskari Ásvaldssyni, og eiginkonu hans, Hólmfríði Bóasdóttur.

Barnaskólanum í Holti var breytt í sveitahótelið Holt Inn sem tók á móti sínum fyrstu gestum þann 18. júní 2018. Tekið hefur verið á móti rúmlega 700 manns í gistingu, en einnig höfum stærri hópum í mat auk þess að halda utan um Þorrablótið í Holti og nú 24. ágúst nk. mun Holt Inn bjóða upp á ball og það sjálft Rjómaballið.

„Við erum mjög ánægð með fyrsta árið okkar. Við erum afar stolt af hótelinu okkar sem ekki einungis er hægt að nýta í gistingu heldur líka fyrir fundi, ráðstefnur, starfsdaga og hinar ýmsu afþreyingu eins og jógatíma, árshátíðir, barnaafmæli, stórafmæli og brúðkaup. En við erum með tvo sali, annan 30 manna og einn 110 manna“ segir Hólfríður í viðtali við Bæjarins besta.

Smalapakki

„Í haust ætlum við að bjóða upp á Smalapakka, en þá er gestum okkar boðið að taka þátt í smölun með okkur. Þetta er einn skemmtilegasti viðburðurinn í sveitinni og því vildum við endilega geta deilt honum með gestum okkar. Sumarið lítur vel út og við erum vongóð um komandi tíma.“

Haldið verður upp á afmælið í dag: “ Í tilefni dagsins bjóðum við upp á kaffi og köku núna seinni partinn og vonumst við til að sjá sem flesta“ segir Hólmfríður að lokum.

 

DEILA