Strandsvæðisskipulag – mikilvægur áfangi í skipulagsmálum

Skipulag á haf- og strandsvæðum er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum á Íslandi. Skýr þörf er fyrir gerð skipulags á þessum svæðum þar sem fjölbreyttar athafnir og aukin eftirspurn eftir athafnasvæðum eru fyrir hendi, m.a. vegna fiskeldis, ferðaþjónustu og efnistöku. Alþingi samþykkti frumvarp mitt um skipulag á haf- og strandsvæðum vorið 2018 og nú er vinna hafin við gerð fyrsta skipulagsins, sem mun annars vegar taka til Vestfjarða og hins vegar Austfjarða.

Tímamót í skipulagsmálum

Hingað til hefur skort yfirsýn yfir starfsemi á haf- og strandsvæðum. Með hinu nýja skipulagi verður mörkuð stefna um nýtingu og vernd auðlinda þessara svæða. Hér er fyrst og fremst átt við staðbundna nýtingu og vernd, en gildissvið laganna nær t.d. ekki til verndar og nýtingar fiskistofna. Gildissviðið nær hins vegar m.a. til skipulags á fiskeldi, ræktunar nytjastofna og efnistöku. Með tilkomu skipulags á strandsvæðum verður m.a. skýrt að leyfi fyrir framkvæmdum eða annarri starfsemi verða að samræmast gildandi strandsvæðisskipulagi, sem unnið er í samvinnu ríkis og sveitarfélaga á svæðinu.

Ávinningur: Skýrari umgjörð og meiri sátt

Markmið laganna er að búa til skipulag sem leggur grunn að fjölbreyttri og sjálfbærri nýtingu og vernd auðlinda á haf- og strandsvæðum. Skipulagsgerðin nær til strandsvæða utan netlaga og mun búa til skýrari umgjörð um hvers konar starfsemi er leyfð og hvernig vernd svæða er tryggð. Gert er ráð fyrir náinni samvinnu ríkis og sveitarfélaga við skipulagsgerðina í svokölluðum svæðisráðum, sem á að geta leitt til meiri sáttar um skipulag svæðanna.

Ríki og sveitarfélög deila skipulagsábyrgðinni

Svæðisráð ber ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags og er skipað fulltrúum fjögurra ráðuneyta, þremur sveitarstjórnarfulltrúum af viðkomandi svæði og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Svæðisráðinu til ráðgjafar og samráðs er samráðshópur með fulltrúum ferðamálasamtaka, Samtaka atvinnulífsins, útivistarsamtaka og umhverfisverndarsamtaka. Skipulagsstofnun annast gerð strandsvæðisskipulags í umboði svæðisráða og er þeim til ráðgjafar.

Verkið er hafið

Vinna að strandsvæðisskipulagi er nú hafin á tveimur svæðum á landinu, á Vestfjörðum og Austfjörðum. Skipuð hafa verið svæðisráð og vinnan er komin af stað, en stefnt er að því að ljúka henni á fyrri hluta ársins 2021. Ég bind miklar vonir við að með skipulagsgerðinni, skýrari umgjörð, samtali og samráði heimamanna, ríkis og hagsmunaaðila, megi ná betri sátt um nýtingu og vernd strandsvæða við Ísland. Þetta er í senn spennandi og krefjandi verkefni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra

DEILA