Sögufræg skip farin til Belgíu

Ísborgin og Hera á leið út til Belgíu í fyrradag. Mynd: Eggert Stefánsson.

Um miðnættið síðastliðið var áformað að tvo ísfirsk skip færu sína síðustu sjóferð. Það eru Ísborgin ÍS 250 og Hera ÞH 60. Eigandinn er Arnar Kristjánsson, útgerðarmaður Ísafirði.  Bæjarins besta hafði samband við hann í gærkvöldi og spurði hvort hann væri nú orðinn skiplaus maður „segi það ekki, en er hættur í bili“ svaraði Arnar.

Að sögn Arnars kom Ísborgin til landsins 1959 sem eitt af 12 skipum sem voru smíðuð í Austur Þýskalandi eftir sömu teikningu og hét í upphafi Hafþór og varð gerður út frá Neskaupstað. Um tíma var skipið gert út frá Súðavík og hét þá Haffari ÍS.

Hera ÞH 60 á sér líka merka sögu. Skipið kom sem nýsmíði 1962 til landsins og var í eigu Gunnvarar á Ísafirði og hét þá Guðrún Jónsdóttir ÍS.

Skipin lögðu af stað fyrir rúmum sólarhring en urðu að snúa aftur til Ísafjarðar vegna bilunar. Arnar sagði að hann ætti von á varahlutum í gærkvöldi og að að skipin myndu láta úr höfn um miðnættið. Ísborgin ÍS mun draga Heru ÞH þar sem hún er vélarvana.

Skipin hafa verið selt til Belgíu í niðurrif. Arnar Kristjánsson er einn af fimm sem sigla skipunum út en skipstjóri verður Rafn Ríkharðsson frá Hólmavík.

DEILA