Rúmar 54 milljóna króna ríkisstyrkur

Sæli BA 333. Mynd: Kvótamarkaðurinn.

Smábáturinn Sæli BA 333, sem skráður er á Tálknafirði fær 253 tonn í þorskígildum talið í byggðakvóta samkvæmt upplýsingum fiskistofu. Byggðakvótanum er úthlutað endurgjaldslaust. Verðmæti byggðakvótans er um 54 milljónir króna sé miðað við meðalverð á leigukvóta í þorski síðustu þrjá mánuði.

Togarinn Páll Pálsson ÍS 102, Hnífsdal fær hins vegar mestan byggðakvóta eða 278 tonn. Verðmæti kvótans er um 59 milljónir króna.  Egill ÍS 77 á þingeyri fær 250 tonna byggðakvóta, sem er nærri 54 milljónir króna virði og fjórði hæsti báturinn er Stefnir ÍS 28 sem fær 171 tonn sem eru um 36 milljóna króna virði á leigumarkaði fyrir þorskkvóta.

Mestum byggðakvóta er úthlutað til Tálknafjarðar 426 tonnum mæld í þorskígildum. Til Flateyrar er úthlutað 420 tonnum og 370 tonnum til Þingeyrar. Í fjórða sæti er Hnífsdalur með 278 tonna úthlutun. Ísafjörður fær 240 tonn og Súðavík 235 tonn.

Til Patreksfjarðar er úthlutað 47 tonnum og aðeins 5 tonnum til Bolungavíkur.

DEILA