Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish segist vera sammála því sem fram kemur í áliti minnihluta Atvinnuveganefndar Alþingis um mikilvægi þess að tryggja hagsmuni náttúrunnar „enda er það algjör forsenda til framtíðaruppbyggingar að fiskeldið líkt og almennt á við um nýtingu okkar sjávarafurða sé framkvæmt á sjálfbæran hátt.“
Sammála um sérstöðu
„Ég er einnig sammála um mikilvægi þess að skapa íslenskum eldisafurðum sérstöðu á markaðinum og tel að þar höfum við einmitt ákveðna sérstöðu er varðar okkar náttúru. Höfum möguleikan að ala seiði á landi með aðgang að heitu vatni, grænni raforku og góðum vatnsgæðum. Það sama er hægt að segja um okkar bláu akra þar sem hreinleiki sjávar, engar veirusýkingar sem og sjávarkuldi skapar Íslandi sérstöðu. Hvergi í heiminum er lax alinn við eins lágt hitastig eins og verður á Vestfjörðum. Það ber þó að nefna að einmitt þessi umhverfisskilyrði sjávar sem og fjarlægð frá helstu mörkuðum getur leitt til þess að samkeppnisstaða okkar er ekki eins góð. Það er því mikilvægt að samhliða uppbyggingu eldisins sé líka unnið að markaðsmálum til þess að hægt sé að ná hærri verðum fyrir okkar hágæða umhverfisvæna vöru.“
Auðlindagjald verði nýtt á svæðinu
„Varðandi gjaldtökuna þá tel ég að auðlindagjald beri að greiða af allri nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar og sá skattstofn að nýtast til uppbygginga innviða á því svæði sem auðlindin er. Tel skynsamlegra að gefa ákveðin griðatíma meðan verið er að byggja upp fiskeldið og fylgja fordæmi Færeyinga með viðbótar tekjuskatt þannig að skatttekjur tengist afkomu greinarinnar.“
Gjöld eru vafasamur hvati til nýrra eldisaðferða
„Að beita gjöldum til þess að auka hvata til að stunda eldi í lokuðum kvíum tel ég vafasamt þó svo að ég er viss um að eldi í lokuðum kvíum muni til framtíðar aukast. Það eru þó viss takmörk fyrir því hvar hægt er að stunda slíkt eldi þar sem núverandi tækni krefst mjög skjólgóðra svæða sem og aðgangi að rafmagni til dælinga. Væri ekki skynsamlegra að hvatinn væri að opna fyrir tilraunaeldi á lokuðum kvíum á nýjum svæðum? Erlendis er verið að skapa stefnu með hvata til þess að gera tilraunir á nýrri tækni með það að markmiði að auka fiskeldið sem og að opna fyrir möguleika á eldi á nýjum svæðum s.s. skjólgóðum fyrir lokuð kerfi og úthafskvíar fyrir opnu hafi. Þar er ekki líkt og ætla mætti af umræðunni verið að útiloka þá eldisaðferð sem í dag er algengust í hefðbundnum sjókvíum þar sem yfir 99% af heimsframleiðslu Atlandshafslax á sér stað heldur eru lokaðar kvíar og úthafskvíar viðbót til þess að auka framleiðslu umhverfisvænnar matvælaframleiðslu.“
Vísir að stefnumótun fyrir fiskeldi
„Það er ýmislegt í áliti Atvinnuveganefndar bæði í meiri sem og minnihluta sem er vísir af því sem ég tel að sé einmitt lykillinn að uppbyggingu umhverfisvæns fiskeldis á Íslandi og lítur að stefnumótun. Í álitunum koma vísbendingar um framleiðslumagn en án þess þó að það sé tilgreint í umfangi eða tíma, hugmyndir um nýja eldistækni, ný eða lokun áður skilgreindra eldissvæða o.s.frv. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að á Íslandi sé mótuð stefna þar sem stjórnvöld leiða í samvinnu við fag- og hagsmunaaðila skilgreinda stefnumótun til framtíðar líkt og tíðkast í okkar nágrannalöndum. Út frá slíkri stefnumótunarvinnu væri mun auðveldara að skapa lagaumgjörð sem tæki mið af þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Þessi vinna þarf ekki að vera mjög tímafrek enda hefur þegar skapast reynsla í fiskeldi og góð þekking til staðar sem og ýmislegt í reynslu annarra þjóða sem hægt væri að nýta við stefnumótun fiskeldis á Íslandi.“