Kort kærenda ekki í samræmi við texta landmerkabókar

Mynd byggð á gögnum 10 eigenda Drangavíkur og birt á Kjarnanum í aðsendri grein eftir Snæbjörn Guðmundsson.

Með kæru 10 eigenda að jörðinni Drangavík fylgir kort sem sýnir mörk jarðarinnar eins og kærendur telja að þau séu.

Landsmerkjabókin fyrir Strandasýslu á þessum tíma 1890 er aðgengileg á vef Landsbókasafns Íslands. Athuga ber að það er hinn þinglýsti texti sem gildir en ekki kort gerð upp úr lýsingunni.

Það sem málið snýst einkum um eru mörk jarðanna Drangavíkur, Engjaness og Ófeigsfjarðar.

Kærendur færa mörkin þannig að Drangavík fær stóran hluta af jörðinni Engjanes og væna sneið af Ófeigsfirði að auki, sé miðað við landamerkin sem stuðst er í tveimur  opinberum málum, annað sem er umhverfismat og leyfisveitingar  fyrir Hvalárvirkjun og hitt sem er  krafa fjármálaráðherra fyrir Óbyggðanefnd um að viðurkenndur verði eignaréttur ríkisins á Drangajökli.

Hvað segir Landamerkjabókin frá 1890?

Drangar:

Fyrir norðan þessar þrjár jarðir eru Drangar. Landsmerkjabókin segir um mörk Dranga að sunnanverðu að Drangar eigi land yst út í Drangatanga sjónhendingu af lægsta Skarðatindinum í vörðu þá sem er á klettinum skammt fyrir ofan sjóinn og svo eftir þeirri línu til sjávar. Til fjalls á jörðin land svo langt sem vötnum hallar að láglendi hennar.

Drangavík:

Nyrst þessara þriggja jarða er Drangavík. Landamerkjabókin segir um mörk jarðarinnar til norðurs við Dranga: „milli Dranga er Drangatangi við sjóinn sjónhending af lægsta Skarðatindinum í vörðu þá sem er á klettinum skammt fyrir ofan sjóinn og svo eftir þeirri línu til sjávar.“

Athyglisvert er að hér eru engin ákvæði  um land til fjalls , eins og er sagt um Dranga.

Til suðurs er mörkum milli Drangavíkur Engjaness lýst svo: „En milli Drangavíkur og Engjanes er Þrælskleif og norðanverðu kúpóttur klettur og varða beint upp af honum Kálhólmar 3 með æðarvarpi.“

Hér eru heldur engin ákvæði um land Drangavíkur til fjalls heldur er greinilega aðeins lýst mörkum við sjóinn.

Engjanes:

Mörkum Engjaness við Drangavík fyrst til norðurs og svo til suðurs er lýst svo: „Hornmark milli Engjanes og Drangavíkur er í Þrælskleif og þaðan bent til fjalls svo eftir hæstu fjallabrún að Eyvindarfjarðará en hún ræður merkjum til sjóar milli Engjanes og Ófeigsfjarðar.“

Hér vekur athygli að tekið er fram að Engjanes á land til fjalls að Eyvindarfjarðará.

Ófeigsfjörður:

Um Ófeigsfjörð segir að mörk jarðarinnar séu „norður að Eyvindarfjarðará og eru þar skýr landamerki fram til fjalla. Á Ófeigsfjörður svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi“.

Á korti því sem fylgir kærunni til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og birt er í aðsendri grein á Kjarnanum með örnefnum má sjá að mörk Drangavíkur ná yfir allt Eyvindarfjarðarlón og suður fyrir það og nær því hvorki land Engjaness né Ófeigsfjarðar að Eyvindarfjarðará eins og texti landamerkjabókarinnar kveður þó á um.

 

DEILA