Kerecis eykur hlutafé um 2 milljarða króna

Hlufafé var selt til núverandi og nýrra hluthafa fyrir $10 milljónir. Að auki breyttust skuldabréf með breytirétti að upphæð u.þ.b. $6 milljónir í hlutafé. Breytt var á genginu 1.570 krónur á hlut. Talsverð umframeftirspurn var hjá fjárfestum eftir bréfum í fyrirtækinu segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Meðal nýrra fjárfesta í félaginu eru Emerson Collective, félag í eigu ekkju Steve Jobs, félagið Omega, sem er í eigu Novators sem er fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, Alvogen og sjóðir á vegum GAMMA.

Hlutafé er nú 6,2 milljónir hluta og gæti markaðsvirði þess verið um 12,4 milljarðar króna.

Kerecis sem var stofnað 2011 er með höfuðstöðvar og framleiðslu á Ísafirði. Félagið framleiðir afurðir sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur. Afurðirnar hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis segir að „meðhöndlun á sykursýkisárum með þorskroði er á hraðri leið með að verða almenn á Bandaríkjamarkaði. Það er mikil aukning á sykursýki á heimsvísu og hundruð þúsunda aflimana framkvæmdar þegar sárameðhöndlun heppnast ekki.“

„Hjá fyrirtækinu starfa nú um 80 manns, þar af 55 í Bandaríkjunum en starf þeirra er að selja vörur fyrirtækisins sem framleiddar eru á Ísafirði.“

DEILA