Ísafjörður : Miklir möguleikar á veiði og útivist

Sigurgísli Ingimarsson hefur tekið Ísafjarðará á leigu og gert samning þar um við Súðavíkurhrepp og Ríkissjóð. Hann keypti s.l. haust eyðijörðina Eyri I í innanverðu Ísafjarðardjúpi og eignaðist þá um leið hlutdeild í Ísafjarðará.

„Ég hefi með hléum veitt í ánni frá 2004 og gengið til rjúpna á þessu landi lengi og þannig smátt og smátt tekið miklu ástfóstri við svæðið þarna í inndjúpinu. Þarna eru miklir möguleikar með þessari ósnortnu náttúru, miklu fuglalífi, gnægð af heitu og köldu vatni og svo mætti áfram telja“ segir Sigurgísli.

Hann hefur uppi áform um að betrumbæta ána sem veiðiá. Með það í huga hefur hann ákveðið að draga úr sókn í ána þetta árið og yrði því aðeins veitt á eina stöng á dag og veiðitímabilið yrði frá 20. Júní til 1. September. Hann hefur í huga að sleppa öllum laxi sem er yfir 70 cm á lengd. Einnig ætlar hann að koma fyrir laxakistum í ánni til að safna laxi til að færa upp fyrir ólaxgengan foss innst í dalnum. Einnig hefur hann í huga að reyna svokallaðan laxagröft. Áin ber fallegan laxastofn sem er vert að varðveita og styðja til frekari vaxtar. Þetta er langhlaup og það gæti tekið nokkur ár fyrir ána að ná fyrri styrk hvað laxgengd varðar. Markmiðið yrði að hún þyldi að úr henni yrðu teknir 50 laxar á ári.

Inndjúpið er mínum huga náttúruperla sem á mikla möguleika sem ferðamannasvæði. Nú þegar er rekin myndarleg gisti- og veitingaþjónusta í Reykjanesi af þeim hjónum Jóni Heiðari og Maríu sem gæti vel nýtzt veiðimönnum sem kæmu í Ísafjarðará. Þannig hafa allir hag af því að uppbygging eigi sé sér stað á svæðinu. Ég vona að áhugasamir stangveiðimenn taka þessum hugmyndum mínum með jákvæðum hætti. En ég hef átt í gegnum tíðina ánægjuleg samskipti við Stangaveiðifélag Ísafjarðar og vil þar nefna Magnús Reyni Guðmundsson, Þorleif Pálsson og Kristján Jóakimsson og vonast til að svo megi áfram haldast. Einnig hef ég alltaf verið í góðu sambandi við hana Jóhönnu Kristjánsdóttur í Svansvík enda hélt hún lengi utan um Ísafjarðará.

DEILA