Ísafjörður: ástand sjúkrabíla óviðunandi

Þorbjörn Sveinsson, slökkviliðsstjóri á Ísafirði segir að ástand sjúkrabíla slökkviliðsins sé ekki í góði lagi, bílarnir eru orðnir gamlir og annar bíllinn hefur verið úr leik í nærri tvo mánuði. „Það er bilun í drifbúnaði og ekkert hægt að nota hann“ segir Þorbjörn. Slökkviliðið hefur brugðist við með því að fá bíl að láni þar til úr rætist.

Þorbjörn Jóhann Sveinsson.

Rauði krossinn á bílana og sér um viðhald og endurnýjun á þeim og Ísafjarðarbær er með fimm ára verktakasamning við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem gerður var 2014 og annast sjúkraflutningana. Nú er samningurinn að renna út og óvissa upp þar sem ríkið hefur ekki tekið af skarið um það hvort áfram verði samið við Rauða krossinn eða að ríkið yfirtaki þessa þjónustu.

Þorbjörn segir að viðhald bílanna sé í sjálfu sér gott en að bílarnir séu orðnir gamlir og því sé ástandið óviðunandi.

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sendi frá sér á dögunum ályktun um alvarlegt ástand á sjúkrabifreiðum landsins  þar sem segir að öryggi sjúkraflutningamanna og skjólstæðinga þeirra er nú ógnað og að ástand bílaflotans sé orðið mjög slæmt.

DEILA