Ísafjarðarbær samþykkir að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar  samþykkti á fundi sínum sl fimmtudag  tillögu bæjarráðs um lækkun á álagningarprósentu fasteignagjalda og

„koma þannig til móts við stórhækkað fasteignamat í sveitarfélaginu. Þannig verði komið í veg fyrir frekari hækkun fasteignaskatta heimilanna í sveitarfélaginu. Með þessari ákvörðun vill Ísafjarðarbær axla sína ábyrgð og vinna í takt við
nýsamþykkta lífskjarasamninga á vinnumarkaði og stuðla að því að markmið
samninganna skili sér til sannarlega til launþega“ eins og segir í samþykktinni.

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en minnihlutinn sat hjá.

Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvaða fasteignagjöld verða lækkuð né heldur hve mikið og mun það skýrast við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

Vill jafna fasteignagjöld um landið

Sigurður Jón Hreinsson lagði fram eftirfarandi bókun:

„Það er ánægjuefni ef núverandi meirihluti telur sig hafa tekið við svo góðu búi frá síðasta meirihluta, að mögulegt sé að fara að draga úr álögum á íbúa sveitarfélagins, og viljinn til þess er útaf fyrir sig vel skiljanlegur. En það eru líka fjölmargar aðrar leiðir til að skila þessum peningum til íbúa sveitarfélagsins, svo sem eins og í gegnum leikskólagjöld, verðlagningu á skólamáltíðum eða sorphirðugjöld svo dæmi séu tekin. Það væri líka hægt að setja þessa peninga í að efla íbúðamarkaðinn og fjölga nýbyggingum.
Þannig mætti t.d. setja inn sem hlutafé í félag sem hefði það markmið að kaupa óbyggðar íbúðir og selja aftur tilbúnar eignir.
Einnig væri hægt að setja þessa peninga í að greiða niður skuldir Fastís og gera það þannig sjálfbært í rekstri. Þá væri einnig hægt að setja svona upphæð sem stofnfé í óhagnaðardrifið leigufélag, en fáar aðgerðir myndu þjóna jafn vel hagsmunum þeirra sem veikast standa í sveitarfélaginu.

Skynsamlegasta afstaða bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar væri líklegast sú að leggja það til sem athugasemd í Grænbók/Hvítbók um framtíð sveitarstjórnarstigsins, að prósenta fasteignaskatts verði allstaðar sú sama á landinu. Öllum fasteignaskatti á landinu verði deilt út í gegnum Jöfnunarsjóð, annarsvegar með tilliti til íbúafjölda og hinsvegar út frá verðmæti fasteigna í hverju sveitarfélagi. Nú þegar hafa stjórnvöld, að því er virðist, ákveðið að sveitarfélög eigi ekki að njóta landfræðilegarar lánsemi af sjókvíaeldi með sama hætti og einstaka sveitarfélög fá að njóta þess að hýsa stóriðjur eða stórvirkjanir, tel ég sanngirnismál að horft verði til þess að fasteignagjöldum á landsvísu verði jafnað milli allra sveitarfélaga landsins.“

DEILA