Íbúðaverð á Ísafirði 40% af verði á höfuðborgarsvæðinu

Í fréttabréfi Hagdeildar Landsbankans kemur fram að fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 447 þúsund krónur á fyrsta ársfjórðungi 2019 og er verðið hvergi hærra á landinu. Næsthæst var fermetraverðið á Akureyri 333 þúsund kr. á fermetra.  Birt eru einnig tölur fyrir Árborg, Akranes og Reykjanesbæ.

Samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár Íslands er fermetraverðið á Ísafirði nærri 181 þúsund krónur sé reiknað  vegið meðaltal fermetraverðs m.v. fjölda viðskipta eins og gert er í útreikningum hagdeildar Landsbankans.

Vantar 27 milljónir króna

Meðalverðið á 100 fermetra íbúð á Ísafirði verður nærri 27 milljónum króna lægra en sambærilegrar íbúðar á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt þessum tölum, þar sem meðalfermetraverðið er annas vegar 447 þúsund krónur og hins vegar 181 þúsund krónur.

Sé verðið á Ísafirði borið saman við meðalfermetraverðið í hinum bæjunum fjórum sem Landsbankinn tekur til skoðunar kemur í ljós að verðið á Ísafirði er 40% af verðinu á höfuðborgarsvæðinu, 54% af verðinu á Akureyri, 58% af verðinu í Reykjanesbæ, 62% af verðinu í Árborg og 65% af verðinu á Akranesi.

DEILA