„Hvenær kemst ég í þennan skóla?“

Háskólalestin í Bolungavík.

Háskólalestin heimsótti Bolungarvík 10. og 11. maí 2019 og seinni daginn var haldin vísindaveisla í félagsheimili staðarins. Þar gátu gestir og gangandi meðal annars leitað að fornleifum, gert ýmsar tilraunir, leikið sér með ljós og rafmagn og leyst fjölmargar þrautir. Óhætt er að segja að hinn 11 ára Oliwier M. Urbanowski hafi verið manna kappsamastur í þrautunum. Hann var sá eini sem náði að leysa þær allar – og þar að auki á aðeins rétt rúmum klukkutíma!

Oliwier fékk aðeins örlitla hjálp við að leysa Gátu Einsteins, frá pabba sínum Grzegorz Urbanowski. Þegar lausnir á öllum þrautum voru komnar í hús og Oliwier hafði skoðað allt annað sem Háskólalestin hafði upp á að bjóða kvaddi hann og fór heim. Fljótlega sneri hann þó aftur og höfðu feðgarnir þá náð í Katarzynu Urbanowska, mömmu hans, sem nú fékk rækilega leiðsögn í öllu því sem Háskólalestin hafði upp á að bjóða.

Áður en Oliwier yfirgaf vísindaveisluna fékk hann að sýna starfsmanni Vísindavefsins fjölmörg myndskeið sem fjölskyldan hafði tekið upp í síðustu heimsókn sinni á Kópernikusar-vísindasafnið í Varsjá. Að endingu spurði Oliwier svo: „Hvenær kemst ég eiginlega í þennan skóla?“

DEILA