Hvalá: framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknum samþykkt

Sveitarstjórn Árneshrepsps samþykkti einróma á fundi sínum í gær að veita Vesturverk ehf framkvæmdaleyfi fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun.

Sveitarstjórnin setti tvö skilyrði. Annars vegar til viðbótar lýsingu á fyrirkomulagi um efnistöku: Þurfi að koma til nýtingar ársetsnámu við Hvalá ofan neðra Hvalárvatns skuli vinnsla námunnar hafin sem fjærst vatnsborði og skilið eftir óraskað belti milli námu og  vatnsbakka og hins vegar til frekari fyllingar á lýsingu í kafla 6.7 um vöktunaráætlun og umhverfisúttekt að upplýsingagjöf til sveitarfélagsins um framvindu verkframkvæmda verði a.m.k. mánaðarlega á tímabili framkvæmda.

Umsóknin er afgreidd með langri bókun þar sem greinilega er verið að styrkja ákvörðunina um veitingu framkvæmdaleyfis  fyrir hugsanlegum kærum.

Segir þar meðal annars : „Í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 3. apríl 2017, kemur fram að setja þurfi skilyrði við leyfisveitingar vegna framkvæmdarinnar. Við breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps og samþykkt deiliskipulagsins, Hvalárvirkjun v/rannsókna, sem hvoru tveggja hefur farið fram eftir umhverfismatsferli Hvalárvirkjunar, hafa mótvægisaðgerðir vegnar framkvæmdarinnar verið útfærðar, sbr. kröfur um
frágang vega, skilmála vegna verkloka, aðstöðu ef horfið yrði frá virkjun o.fl. Árneshreppur hefur því tekið afstöðu til álits Skipulagsstofnunar við gerð nýrra skipulagsáætlana og þá m.a. horft til áherslna sem koma fram í álitinu.“

Að rannsóknunum loknum er næsta skref að gera aðalskipulagsbreytingar fyrir sjálfa virkjunarframkvæmdirnar og afgreiða framkvæmdaleyfi fyrir byggingu hennar.

 

DEILA